Telja litlar líkur á að hraunið nái til sjávar

Gosið eins og það leit út nú síðdegis.

Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að nú hafi virkni eldgossins sem hófst í gærkvöld minnkað töluvert og að aðeins gjósi á þremur stöðum í sprungunni. Líkur á að hrauntungan sem flætt hefur í suðaustur nái því til sjávar hafa því farið minnkandi.

Hraunjaðarinn í suðri er í innan við 250 m fjarlægð frá Suðurstrandarvegi. Nú síðdegis hefur framrás jaðarsins verið um 12 m/klst., sem er talsvert minni hraði en mældist fyrr í dag. Ef hraðinn helst óbreyttur mun hraun ná Suðurstrandarvegi eftir um 20 klukkustundir. Hraunið þyrfti svo að ferðast um 350 m til viðbótar til að ná alla leið til sjávar.

Ef hraun næði til sjávar gæti það valdið staðbundinni hættu vegna snöggrar kælingar á hrauni. Í fyrstu væri hætta vegna gjósku og gasmyndunar, fyrst og fremst saltsýra (HCI). Í um 500 m radíus frá þeim stað þar sem hraun kæmist í snertingu við sjó, væru aðstæður lífshættulegar. Eftir því sem fjær dregur minnkar hættan og er hverfandi í meira en 3 km fjarlægð.

Ef horft er til þróunar í virkni gossins í dag, er það talið ólíklegt að hraun nái til sjávar. Miðað við hraðan á framrás hraunjaðarsins nú síðdegis (12 m/klst.), tæki það um tvo daga. Á meðan að eldgos heldur áfram er engu að síður mikilvægt að vera undirbúin fyrir þessa sviðsmynd þar sem þær aðstæður sem þá gætu myndast eru lífshættulegar þeim sem eru innan áhrifasvæðisins.

Hér fyrir neðan er kort sem sýnir áhrifasvæði ef til þess kæmi að hraun næði til sjávar. Sú sviðsmynd og viðbragðsáætlanir henni tengdri hafa verið ræddar á stöðufundum Veðurstofunnar og Almannavarna í gær og í dag.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila