Telur forseta Alþingis brjóta þingskaparlög með því að birta ekki skýrsluna í Lindarhvolsmálinu

Þorsteinn Sæmundsson fyrrverandi þingmaður Miðflokksins telur að með því að neita að birta greinargerð Sigurðar Þórðarsonar í Lindarhvolsmálinu sem afhent var Alþingi á sínum tíma sé forseti Alþingis að brjóta gegn þingskaparlögum. Þetta kom fram í máli Þorsteins í dag í síðdegisútvarpinu en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Þorsteinn bendir á að ein heilagasta skylda þingmanna sé að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu og ef forsetar þingsins á hverjum tíma hindri þingmenn í að sinna þeirri skyldu sinni þá séu menn komnir á slæman stað.

Hann bendir á að þegar núverandi ríkisendurskoðandi steig fram á dögunum og sagði að skýrsluna ætti að birta hafi hann farið út fyrir sitt verksvið því það sé ekki í verkahring hans að segja þinginu fyrir verkum.

„það er líka annað sem ég velt fyrir mér, það er að þeir sem setja sig upp því að greinargerð Sigurðar Þórðarsonar sé birt er núverandi ríkisendurskoðandi og eini starfandi stjórnarmaður Lindarhvols sem er eftir og er minnislaus samkvæmt því sem fram kom fyrir dómi. Ég lít þannig á að þessir tveir einstaklingar séu aðilar að málinu, þeir eru báðir búnir að koma að málinu á fyrri stigum og eiga að mínu áliti ekki að blanda sér í það hvort þingið birti greinargerðina eða ekki“segir Þorsteinn.

Þorsteinn segir greinargerðir stjórnarmanns Lindarhvols sem Þorsteinn hafi séð gefi ekkert tilefni til þess að taka ákvörðun um að ekki eigi að birta greinargerð Sigurðar, enda liggi fyrir nú þegar tvö lögfræðiálit um að hana skuli birta, það nýjasta frá árinu 2022.

„núna virðist Birgir Ármannsson forseti Alþingis vera búinn að fella að því er virðist upp á sitt eindæmi lögfræðiálitið líka undir trúnaðarskyldu en eins og Sigmundur Davíð kom inn á í þinginu um daginn þá getur Miðflokkurinn komið til hjálpar því flokkurinn lét vinna lögfræðiálit um sama efni og þar var niðurstaðan einnig sú að það ætti að birta skjalið, en munurinn er sá að það er enginn trúnaður um álitið sem Miðflokkurinn lét vinna, það er því hægt að birta það hvar sem er og hvenær sem er“segir Þorsteinn.

Þá vísar Þorsteinn í þá hugmynd Þorsteins Pálssonar fyrrverandi ráðherra að það væri einfaldlega hægt að pakka skýrslunni inn í 63 umslög og senda þingmönnum í pósthólfið þeirra og segist Þorsteinn bera þá von í brjósti að einn daginn muni þannig þingmenn fá skýrsluna afhenta.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila