Það stendur engin vörð um hagsmuni Íslands nema við sjálf

Það er mjög mikilvægt að við stöndum vörð um hagsmuni Íslands enda gerir það enginn nema við sjálf. Ef við gerum það ekki er mikil hætta á að við missum frá okkur yfirráð yfir auðlindum okkar og að lokum glötum við fullveldinu. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Arnars Þórs Jónssonar forsetaframbjóðanda og lögmanns í þætti Péturs Gunnlaugssonar í dag.

Arnar Þór segir að íslenskir stjórnmálamenn hafi verið alltof ragir við að beita neitunarvaldi þegar kemur að innleiðingu reglna sem hingað koma frá Evrópusambandinu. Hann segir að líkleg skýringu megi finna í því að þessir stjórnmálamenn vonist til þess að fá þægilega innivinnu hjá Evrópusambandinu eða alþjóðlegum stofnunum þegar þeirra tíma í stjórnmálum sé lokið hér á landi og því leyfi þeir öllu sem frá Evrópusambandinu kemur að renna í gegn nánast gagnrýnislaust.

Afleiðingar orkupakka 3 eiga eftir að koma fram hér á landi

Bendir Arnar Þór á orkupakkamálið sem dæmi. Þar hafi stjórnmálamenn látið sér í léttu rúmi liggja hvaða skaðlegu afleiðingar orkupakki 3 hefði á Ísland. Bendir Arnar Þór á að í Noregi hafi menn farið ansi illa út úr því að samþykkja orkupakkann og nú kosti það um 75.000 krónur fyrir Norðmenn að hita sumarhús sín yfir eina helgi þegar þeir ætla að gista í þeim. Þó séu Norðmenn það vel settir að geta greitt niður orkuverð með olíupeningum en því sé ekki til að dreifa hér á landi.

Landsvirkjun má ekki selja

Ísland muni einfaldlega ekki þola að lenda í slíku og því verði menn að vera á varðbergi og þora að beita synjunarvaldi þegar það á við. Þá sé líka rétt að gæta þess að Landsvirkjun verði ekki seld og segir Arnar Þór að nái hann kjöri til embættis forseta myndi hann neita að staðfesta lög um sölu á Landsvirkjun og vísa því til þjóðarinnar.

Hlusta má á ítarlegri umræðu um málið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila