Í þætti Kristjáns Arnar Elíassonar um stjórnsýslu- og neytendamál ræddi hann við Arngrím Pálmason sem hefur átt við fötlun að glíma frá fæðingu. Yfirskrift þáttarins er Bankahrunið en Arngrímur ræðir upplifun sína á bankahruninu 2008, afleiðingar þess og hvaða áhrif það hafi haft á hann og þjóðfélagið allt. Hann er ekki bjartsýnn á framhaldið nú 15 árum síðar, áhuga- og/eða getuleysi stjórnvalda um uppgjör sé algjört og því muni ekkert vera gert að óbreyttu. Arngrímur telur að spillingin á Íslandi hafi aldrei lifað betra lífi en einmitt nú og hvetur þjóðina til að vakna. „VAKNIÐ ÞIÐ,“ segir hann.
„Við ætlum að tala um bankakerfið hér á Íslandi í það heila. Söluna á bönkunum frá árinu 1998 til ársins 2004 og afleiðingar þess til dagsins í dag en þetta er bara það sem ég ætla að ræða í þessum þætti,“ segir Arngrímur í upphafi þáttarins.
Hagsmundasamtök heimilanna voru með fund í kirkju Hjálpræðishersins laugardaginn 7. október sl. en þá var þess minnst að daginn áður voru 15 ár liðin frá Hruninu.
„Hagsmunasamtök heimilanna voru með kleinukaffi þarna og Ásta Lóa sagði að þetta væri eiginlega minningarathöfn, þau hefðu eiginlega ekkert að segja og ég hafði heldur ekkert að segja, þá“
Arngrímur segir að þarna inni hafi vaknað einhvers konar óeirð í hjartanu, sérstaklega þegar hann hafi verið hvattur til að tala um lánamál sín. Þrátt fyrir þúsundi funda sem hann hefur sótt segist hann aldrei hafa verið tilbúinn að standa upp og tala um eitt eða neitt.
„Ég sagði nei, ég vil ekki gera það og ég gerði það ekki heldur,“ segir Arngrímur.
„Ég er búinn að vera með óeirð í hjartanu síðan þetta varð, sérstaklega í ljósi þess að Ragnar Þór Ingólfsson og Ásta Lóa skrifuðu einhverja frábærustu grein um bankaránið mikla, BANKARÁNIÐ MIKLA sem átti sér stað 6. október 2008 og enginn hefur gert upp, ENGINN HEFUR GERT UPP á nokkur einasta handarinnar máta“.
„Svo ég hugsa með mér, jæja, ég er nú búinn að vera vesenast í þessu í þrettán ár og á þessum þrettán árum eru búnir að vera rosalega margir fundir og rosalega miklar pælingar og rosalega margt skoðanamyndandi. Þannig að ég ákvað að fá þátt hérna hjá Útvarpi Sögu, með Kristjáni vini mínum, til þess að reyna að skýra þetta og ég ætla að reyna að nota í þetta tvo tíma. Ég ætla að reyna að fylla upp í þessa tvo tíma með minni skoðun á hvað gerðist og afleiðingarnar og í raun og veru hvað ég myndi vilja gera vegna þess að eins og þetta er í dag þá er þetta eins og við búum í Andrés Önd blaði“.
Hlusta má á frásögn Arngríms í spilurunum hér að neðan: