Þingmenn Sjálfstæðisflokksins treysta ekki Svandísi vegna hvalveiðibanns – Útilokar ekki stjórnarslit

Staða Svandísar Svavarsdóttur innan ríkisstjórnarinnar er ekki góð í ljósi þess að hún hefur farið offorsi í hvalveiðimálinu og ekki virt stjórnsýslulög. Afleiðingarnar af ákvörðunum ráðherra á stjórnarsamstarfið hafa ekki enn komið í ljós en málið situr þungt í þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Ljóst er að ákvörðun ráðherrans mun hafa áhrif á stjórnarsamstarfið og meta þarf hvort efna þurfi til kosninga eða fá einhver borgaraleg öfl að borðinu. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Vilhjálms Árnasonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins í viðtali við Arnþrúði Karlsdóttur í dag.

Vilhjálmur bendir á að ákvörðun Svandísar um að banna hvalveiðar í skyndi hafi sett lifibrauð um 200 einstaklinga í uppnám daginn áður en veiðarnar áttu að hefjast. Hann segir það þó ekki einu alvarlegu áhrifin sem ákvörðunin hefur.

„þarna er fyrirtæki sem ákveður að vera í auðlindanýtingu og nýtir sér atvinnufrelsi til þess. Það verslar við mörg önnur fyrirtæki og skapar mörg störf, þannig skapar fyrirtækið umsvif í efnahagslífinu. Það er grundvallaratriði að þessi prinsipp og stjórnarskrárvörðu réttindi, að lifa á auðlindum, séu virt og það skiptir miklu máli ef við ætlum að hafa hér öfluga innviði“ segir Vilhjálmur.

Ákvörðun ráðherra þegar farin að hafa áhrif á stjórarsamstarfið

Aðspurður um hvernig hægt sé sitja þegjandi yfir því og styðja þessa ríkisstjórn sem þingmaður þegar stjórnarskráin sé brotin með þessum hætti segir Vilhjálmur:

„það er auðvitað mjög erfitt enda hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekkert legið á þeirri skoðun sinni að þetta muni hafa áhrif og hafi haft þegar áhrif auk þess sem traustið gagnvart matvælaráðherra hefur verið rofið“

„það er ekki alveg orðið útséð með þetta og við höfum verið að kalla eftir gögnum, fá svör og krafist þess að þetta verði endurskoðað en það hefur verið eitthvað fátt um svör enn sem komið er, þannig það er ekki útséð með það hver endanleg viðbrögð munu verða“segir Vilhjálmur.

Stjórnarslit ekki útilokuð

Aðspurður um hvort það komi til greina að Sjálfstæðisflokkurinn fari út úr ríkisstjórn eða myndi nýja ríkisstjórn með öðrum flokkum segir Vilhjálmur:

„ég held að við verðum að setja fram skýrt hvaða mörk við setjum á okkar hugsjónir og okkar mál. Ef við ætlum að standa undir þessum grunninnviðum og draga úr verðbólgu með verðmætasköpun og aðhaldi í ríkisrekstri þurfum við að sjá hverjir eru tilbúnir í það með okkur.

Ef Vinstri grænir eru tilbúnir í það og ef það verður breyting á starfsháttum þeirra þá er ekki ástæða til breytinga á ríkisstjórninni. Ef þeir eru ekki tilbúnir í það, þá erum við í allt annari stöðu og verðum að fara að horfa yfir sviðið. Þarf þá kosningar eða einhver borgaraleg öfl með okkur eins og Brynjar Níelsson nefndi í sínum pistli?“

Innviðir samfélagsins lykillinn að velferð

„innviðirnir okkar eru til dæmis samgöngurnar, það eru veiturnar eins og rafmagnið og vatnið sem og heilbrigðiskerfið, almannatryggingarkerfið, félagsþjónustan. Þetta eru allt okkar mikilvægu innviðir og hvernig ætlum við að reka alla þessa innviði fyrir fólkið sem þarf á þeim að halda. Við erum að skaða velsæld þjóðar ef við stundum ekki auðlindanýtingu og veitum fyrirtækjunum frelsi til þess að stunda atvinnu? Þess vegna lítum við það mjög alvarlegum augum þegar þessi stjórnarskrárvörðu réttindi eru ekki virt“ segir Vilhjálmur.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila