Þjóðin óánægð með að ráðherrar axli ekki ábyrgð

Þjóðin er óánægð með og orðin þreytt á því að ráðherrar axli ekki ábyrgð í raun, heldur setjist bara í næsta ráðherrastól. Þetta segir Þorvaldur Logason heimspekingur en hann var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur. Í þættinum var rætt um spillinguna í þjóðfélaginu og hvernig hægt sé að þekkja einkenni spillingar þegar fólk sækist eftir völdum. Þorvaldur Logason heimspekingur skrifaði bók um spillinguna fyrir síðust jól og vakti hún gríðarlega athygli.

Hann segir að sé horft til nágrannaþjóðanna þá séu alveg skýrar línur í þessum efnum. Geri ráðherra eitthvað sem veldur því að hann þurfi að víkja þá fer viðkomandi ráðherra alfarið úr ríkisstjórninni og þar með hefur hann raunverulega axlað ábyrgð.

Fyrst skiptir Bjarni um stól

Tekur Þorvaldur sem dæmi að þegar Bjarni Benediktsson hafi farið úr stól fjármálaráðherra og yfir í utanríkisráðuneytið hafi fólk orðið mjög óánægt og reitt. Þorvaldur segir að þetta heiti ekki að axla neina ábyrgð enda sé Bjarni núna orðinn meira segja forsætisráðherra.
Það að axla ábyrgð þýði til dæmis að viðkomandi stjórnmálamaður sýni svolitla auðmýkt og viðurkenni mistök sín en það sé auðvitað engin viðurkenning þegar ráðherra fari bara yfir í næsta ráðuneyti og er þar með orðinn stikkfrír.

Svandís skipti líka um stól

Þegar þessi ríkisstjórn hélt áfram undir forystu Bjarna Benediktssonar þá bættist þar í hópinn Svandís Svavarsdóttir sem í raun hefði ekki getað setið í stól matvælaráðherra vegna lögbrota og ámæli frá Umboðsmanni Alþingis. Þá fór hún í innviðaráðuneytið og eðlilega finnst fólki þetta algjörlega siðlaust. Þegar lög séu brotin hvort sem það sé Svandís eða Bjarni þá verði það að hafa einhverjar afleiðingar sem það hefur ekki haft hvorki fyrir Svandísi né Bjarna.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun um málið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila