Þjóðin verður að spyrja hverjum hún myndi treysta á ögurstundu

Þegar kemur að forsetakosningum er rétt að þjóðin staldri við og spyrji sig hverjum af þeim sem eru í framboði myndi hún treysta á ögurstundu því sú staða getur komið upp að þjóðin þurfi að reiða sig á forsetann. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Helgu Þórisdóttur forsetaframbjóðanda sem gengt hefur starfi forstjóra Persónuverndar um árabil en Helga var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur.

Helga segir að það sé mjög mikilvægt að þjóðin velji forseta sem geti staðið uppréttur á hverju sem dynur því það að vera forseti er ekki alltaf auðvelt eða létt starf. það sé að sjálfsögðu auðvelt þegar allt leikur í lyndi en nú standi þjóðin til dæmis í miðri tæknibyltingu, svo sé mikill ófriður í veröldinni og þess vegna þurfi einmitt forseti að hafa þá kunnáttu til þess að geta gripið þá bolta á lofti sem geti komið. Þá þurfi forsetinn að geta tekið á móti öllum þeim sem vilji ræða við forsetann.

Ísland á góða íslenska menningu og varasamt að breyta henni

Arnþrúður benti á að það sé einnig að eiga sér stað menningarbylting sem margir séu ekki sáttir við og segir Helga að við búum við hina góðu íslensku menningu. Hér séum við afkomendur mjög sterkra einstaklinga sem byggðu þetta land en svo eru það hinir sem hingað flytjast og vilja búa hér á landi og þjóðin þurfi að takast á við þær áskoranir sem því fylgi og í því efni geti reynt á forsetann.

Forsetinn þarf að geta lesið samfélagið

Forsetinn þurfi að kunna að lesa sitt samfélag og skilja hvar mest þrengir að. Það sé margt sem gerist í samfélaginu sem ekki allir viti um og þar sem forsetinn hafi sterka rödd í samfélaginu geti hann leitt fólk saman með sínum mætti.

Starfað í 29 ár við að gæta hagsmuna almennings

Helga segir að reynsla sín og störf sem lögfræðingur í 29 ár í opinberri þjónustu sem aðallega hafi falist í að gæta hagsmuna almennings,komi sér vel og muni nýtast henni í embætti forseta. Helga vinnur nú fast að því að safna þeim 1500 meðmælum sem þarf til þess að geta stigið skrefið lengra og enn vantar nokkra upp á. Hún hefur að undanförnu verið að fara um landið og hitta landsmenn og segir að þegar hún hafi sagt fólki hvað hún standi fyrir þá sé henni alltaf vel tekið.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að styðja framboðið eða setja nafn sitt á meðmælalista hjá Helgu er rétt að benda á að hægt er að hafa samband í síma 791-1070 eða koma á kosningaskrifstofuna sem er staðsett á Grensásvegi 8, Reykjavík.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila