Þögn Katrínar um forsetaframboð og vandræðagangurinn

Þögn Katrínar Jakobsdóttur um það hvort hún ætli að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands hefur mikil áhrif á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og er líklega ástæða þess að hún hafi ekki enn verið lögð fram þrátt fyrir lagaskyldu þar um. Mikill vandræðagangur er hjá ríkisstjórnarflokkunum vegna óvissu vegna Katrínar. Þetta kom fram í máli Bergþórs Ólasonar þingmanns Miðflokksins í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur í dag.

Bergþór bendir á að samkvæmt lögum eigi að leggja fram fjármálaáætlun fram fyrir 1.apríl en nú hafi verið kynnt að hún verði ekki rædd fyrr en um miðjan mánuð. Væntanlega vegna þess að Sjálfstæðismenn séu ekki tilbúnir til þess að sýna á spilin af því þeir vita ekki hvort Katrín verði farin fyrir vikulok eða ekki.

VG og Framsókn vilja ekki fara í niðurskurð

Þetta þýði einnig að Sjálfstæðismönnum hafi ekki litist á þá fjármálaáætlun sem á að birta því væntanlega hafi bæði VG og Framsóknarmenn komið að máli við fjármálaráðherra og sagt að þar sem þeir væru búnir að missa helming fylgisins þá væru þeir ekki að fara að skera niður um eina einustu krónu og eftir stendur þá Seðlabankinn einn í slagnum við verðbólguna.

Telur að Katrín ætli sér í forsetaframboð

Hvað mögulegt framboð Katrínar varðar þá segir Bergþór að hann telji líklegra heldur en ekki að hún muni bjóða fram. Segir Bergþór það blasa við að vandræðagangurinn vegna fjármálaáætlunarinnar sé vegna þeirrar óvissu hvort Katrín ætli í forsetaframboð. Ef af verði þá séu þrír möguleikar í stöðunni fyrir ríkisstjórnina.

Möguleikar í stöðunni núna

Í fyrsta lagi gætu flokkarnir reynt að lappa upp á ríkisstjórnina með því að setja Svandísi Svavarsdóttur sem oddvita Vinstri grænna sem sé í raun ótrúlegt sé horft til þeirrra mála sem flokkana greini á um. Í öðru lagi gæti verið hægt að gera breytingu á flokkasamsetningu ríkisstjórnarinnar og Vinstri grænir færu út en það væri erfið staða einnig því betur hefði farið á því að gera það síðasta haust því þá hefði ný ríkisstjórn geta haft áhrif á gerð fjárlaga þessa árs en nú sé hins vegar ekkert eftir nema kosningafjárlög sem sé ekki spennandi kostur fyrir nýjan samstarfsflokk að ganga inn í. Í þriðja lagi væri hægt að boða til kosninga en það sé afar ólíklegt að ríkisstjórnarflokkarnir séu til í að fara þá leið í ljósi mikils fylgistaps.

Hlusta má á nánari umfjöllun um málið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila