Þórdís Kolbrún á fundi NATO í Búkarest

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tekur þátt í utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins sem hefst í Búkarest í Rúmeníu í dag, 29. nóvember. Viðbrögð við innrás Rússlands í Úkraínu verður þar í brennidepli en fjölmörg önnur mál verða einnig til umfjöllunar. Utanríkisráðherrar Finnlands og Svíþjóðar taka sem boðsríki þátt í öllum vinnulotum fundarsins og markar þátttaka þeirra tímamót. Ráðherrarnir munu jafnframt eiga vinnukvöldverð með Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu.

Frá Búkarest heldur utanríkisráðherra til Łódź í Póllandi þar sem utanríkisráðherrafundur Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) fer fram. Afleiðingar innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu og viðbrögð við því verða þar efst á baugi. Þá tekur ráðherra einnig þátt í hliðarviðburði um mansalsmál.

Síðan heldur utanríkisráðherra til Varsjár þar sem sendiráð Íslands í Póllandi verður formlega opnað. Forystufólk í pólsku stjórnmála-, viðskipta- og menningarlífi auk fulltrúa íslenskra fyrirtækja í Póllandi og pólsk-íslenskra vináttufélaga sækja móttöku sem efnt verður til af þessu tilefni.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila