Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur ekki lesið samninginn sem gerður var við lyfjarisana um kaup á bóluefnum gegn Covid til landsins og segir ástæðuna vera að hann sé ekki aðili að samningnum. Þetta kom fram á fundi Almannavarna og sóttvarnalæknis í morgun.
Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri sem var var á fundinum spurði Þórólf þeirrar spurningar hvers vegna sú leið hafi ekki verið farin að segja þjóðinni frá því að um lyfjatilraun væri að ræða.
Í svari sínu sagði Þórólfur að hann gæti ekki staðreynt hvort lyfjatilraun væri að ræða þar sem hann væri ekki aðili að samningnum og sagðist telja að búið væri að uppfylla allar kröfur sem hægt væri að gera til lyfja og bóluefna í því ástandi sem nú er uppi með rannsóknum. Þær fullyrðingar sóttvarnalæknis stangast á við orð heilbrigðisráðherra Willums Þórs Þórssonar sem segir að rannsóknum á bóluefnunum ljúki ekki fyrr en árið 2026.
Kynnti sér ekki það sem fram fór á fundi Velferðarnefndar
Aðspurður um hvort hann teldi þá rangt það sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefði sagt á fundi Velferðarnefndar þann 29.desember að rannsóknum á bóluefnunum myndi ekki ljúka fyrr en á árinu 2026 eins og segir í frétt Útvarps Sögu frá 29.desember síðastliðinn, svaraði Þórólfur því til hann ætlaði ekki að ræða um eitthvað sem fullyrt væri að sagt hefði verið á fundi nefndarinnar þar sem hann hefði ekki heyrt það sem fram fór á fundinum.
Rétt er að geta þess að í samningnum sem Útvarp Saga hefur undir höndum koma þar mikilvæg atriði fram, meðal annars að um lyfjatilraunir sé að ræða og upplýsingar um mögulegar aukaverkanir af þeim lyfjum sem notuð eru til bólusetninga gegn Covid, einkum hjá börnum. Þessar mikilvægu upplýsingar hefur sóttvarnalæknir nú viðurkennt að hafa ekki séð.
Vísindasiðanefnd vísar á Þórólf
Vísindasiðanefnd sagði í samtali við Útvarp Sögu að samningarnir hefðu ekki ratað inn á borð nefndarinnar því þeir væri alfarið á borði sóttvarnalæknis.
Áleitnar spurningar vakna um réttmæti í ákvarðanatöku sóttvarnalæknis vegna orða Þórólfs um að hann hafi hvorki kynnt sér þau mikilvægu skjöl sem bóluefnasamningurinn er né það sem fram fór á fundi Velferðarnefndar, en sóttvarnalæknir hefur ítrekað tekið ákvörðun um að senda tillögur til heilbrigðisráðherra um fjöldatakmarkanir, tilhögun einangrunar og sóttkvíar, bólusetninga barna og fullorðinna sem og tímabundinna lokunar fyrirtækja, með tilheyrandi röskunum, fjárhagstjóni og mögulega heilsutjóni einstaklinga.
Smelltu hér til þess að lesa nánar um fund Velferðarnefndar og svör Willums Þórs
Hér að neðan má heyra spurningar Arnþrúðar og svör Þórólfs frá fundinum í morgun