Þróa þýðingarvél milli pólsku og íslensku

Reykjavíkurborg og íslenska máltæknifyrirtækið Miðeind ehf. hlutu á dögunum tæplega 30 milljóna króna styrk úr Markáætlun í tungu og tækni. Styrkurinn er veittur til verkefnis sem snýr að vélþýðingum milli pólsku og íslensku.

Í tilkynningu segir að helstu verðmæti verkefnisins liggi í greiðari aðgangi pólskumælandi Íslendinga og innflytjenda að mikilvægum upplýsingum hjá sveitarfélögum.

Í samstarfinu mun Miðeind leiða tæknilega þróun hugbúnaðarlausnar og Reykjavíkurborg leggur til þjálfunargögn sem standast gæðakröfur verkefnisins og framkvæmir gæðamat á þýðingum sem hugbúnaðurinn skilar frá sér. Með þjálfunargögnum er átt við samhliða málheildir, þ.e. texta á öðru hvoru tungumálinu auk þýðingar yfir á hitt tungumálið. Magn og gæði þessara gagna gegna lykilhlutverki í verkefninu. Öllum mögulegum gögnum umfram þau sem Reykjavíkurborg mun leggja til verkefnisins má koma til skila á netfangið mideind@mideind.is

Bætt aðgengi að upplýsingum

„Verkefnið er samfélagslega ábyrgt, því er ætlað að greiða aðgengi stærsta innflytjendahóps landsins að mikilvægum upplýsingum, og opna lausnin sem verður aðgengileg á vélþýðing.is mun gera öllum kleift að þýða hvaða texta sem er milli pólsku og íslensku. Við myndum þiggja með þakklæti öll þau þjálfunargögn sem kunna að leynast hjá fyrirtækjum, stofnunum eða einstaklingum,“ segir Katla Ásgeirsdóttir, viðskiptaþróunarstjóri Miðeindar.

Miðeind hefur þegar hafið þróun á vélþýðingalausn sem ætlað er að þýða texta milli pólsku og íslensku og er tilraunaútgáfa af þeirri lausn aðgengileg á vefslóðinni vélþýðing.is. Samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Miðeindar snýr að því að byggja ofan á þá frumgerð sem þegar er til og kenna henni að þýða vel tilteknar tegundir texta sem snúa að upplýsingamiðlun sveitarfélaga. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila