Þurfum að endurreisa grunnkerfin og vanda þar vel til verka

Þó margt sé gott í samfélaginu þá er ljóst að pottur er brotinn víða þegar kemur að grunnkerfum samfélagsins, til dæmis heilbrigðiskerfinu þar sem er alveg ljóst að eitthvað mikið er að. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Guðmundar Árna Stefánssonar varaformanns Samfylkingarinnar og fyrrum bæjarstjóra og ráðherra í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Guðmundur segir mjög mikilvægt að allir fái sömu tækifæri í lífinu, til dæmis til að mennta sig og svo framvegis, en þá séu alltaf einhverjir hópar sem falli milli skips og bryggju og þá þurfi samfélagið og innviðir þess að vera viðbúið að taka utan um þá hópa. Hann nefnir sem dæmi málaflokk fatlaðs fólks í þessu sambandi. Þar sé lagaumgjörðin orðin mjög góð á meðan framkvæmdin sé öll í molum sem birtist helst í því að ríki og sveitarfélög takist á um hver eigi að borga brúsann þ,e að það fylgi ekki nægilegt fé frá ríkinu til þjónustunnar sem færð hafi verið yfir til sveitarfélaganna.

„það ömurlegasta er að í miðri þessari deilu situr fólkið uppi með svarta Pétur og þetta bitnar á því, en við þurfum auðvitað að geta veitt þá þjónustu sem við höfum gefið fyrirheit um og lofað, það er bara ekkert flóknara en það“ segir Guðmundur.

Þá nefnir Guðmundur sem meðal annars er fyrrverandi heilbrigðisráðherra fleiri dæmi og segir að þegar horft sé á stöðuna í heilbrigðismálunum þá sé alveg ljóst að það sé eitthvað mikið að. Guðmundur segir dæmi af manni sem hann hitti og sá hafi þurft að komast í almenna læknisskoðun til þess að endurnýja ökuréttindi sín, en þegar maðurinn hafi hringt á heilsugæslustöðina var honum sagt að ekki væri tekið við slíkum beiðnum fyrr en eftir 12.desember og þá kæmist maðurinn kannski að í janúar eða febrúar.

„þetta segir okkur það einfaldlega að grunnþjónustan er ekki í lagi og ef hún er ekki í lagi þá verður kerfið þar fyrir ofan allt í klessu og skekkist allt saman“ segir Guðmundur.

Þetta leiðir til þess að hátæknisjúkrahúsið sem verið sé að reisa mun þurfa að taka við verkefnum sem eiga að vera neðar í kerfinu.

Hann bendir á að Kristrún Frostadóttir nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar hafi einmitt nefnt að vilja taka þessi mál grunnkerfanna föstum tökum og reisa þau upp á nýtt og ekki kasta þar til hendinni og gera það á einum degi heldur vanda vel til verka.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila