Treystir á að nýr matvælaráðherra veiti Hval hf leyfi til hvalveiða

Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins segist vona og treysta á að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra muni veita Hval hf leyfi til hvalveiða innan skamms svo hægt verði að veiða hval í sumar. Þetta kom fram í máli Ásmundar í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar.

Ásmundur segir að það sé nú stutt síðan ráðherran hafi tekið við embættinu og þeim málum sem því fylgir. Það sé þó hans skoðun að það sé alger óhæfa að nú séu liðnir 100 dagar frá því umsókn um leyfið hafi borist án þess að því hafi verið svarað og hann gagnrýni það harðlega.

Einungis Alþingi sem getur bannað hvalveiðar

Hann segist ekki trúa því fyrr en á reyni að ráðherra ætli ekki að svara erindinu og bendir á að eini aðilinn sem geti bannað hvalveiðar sé Alþingi. Hann segist sammála því að það geti ekki gengið upp að fyrirtæki eigi að geta átt von á því að ráðherra stöðvi starfsemi þess eins og Svandís Svavarsdóttir gerði í fyrra.

Þarf að veita leyfi lengur en til eins árs

Þá segir Ásmundur að það eigi auðvitað ekki að vera þannig að fyrirtæki fái leyfi fyrir starfsemi aðeins ár fram í tímann. Hann bendir á að önnur fyrirtæki þurfi ekki að þola slíkar takmarkanir og það væri til dæmis mjög erfitt að reka útvarpsstöð eins og Útvarp Sögu ef þessi sömu skilyrði giltu fyrir slíka starfsemi. Það sé einfaldlega þannig að fyrirtæki starfi bara eftir lögum sem í landinu gilda og hið opinbera á ekkert með að vera að hlutast til um starfsemi þeirra.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila