Trump hundskammar flokkssystkini sín

Donald Trump fyrrverandi forseti Bandaríkjanna lét flokkssystkini sín í Repúblikanaflokknum heyra það á árlegu þingi íhaldsmanna sem haldið var í Washington þar sem forsetinn fyrrverandi hélt eldræðu. Í þættinum Heimsmálin, fréttir og fréttatengt efni af erlendum vettvangi í dag ræddi Gústaf Skúlason fréttamaður í Stokkhólmi um ræðuna en Gústaf var viðmælandi Péturs Gunnlaugssonar.

Hann gagnrýndi þá flokksmenn harðlega sem segðust vera repúblikanar að nafninu til og sagði að það þyrfti að losa flokkinn við slíka óværu. Flokkinn væri ekki hægt að byggja upp nema með alvöru fólki, fólki sem væru raunverulega repúblikanar út í gegn.

Þá sagði Trump flokknum hafa verið stjórnað af glóbalistum, ofstækisfullum fylgismönnum opinna landamæra og fíflum og því þyrfti að breyta all snarlega að hans mati.

Ef marka má skoðanakannanir sem gerðar voru meðal íhaldsmanna á þinginu eru margir íhaldsmenn sammála Donald trump því hann hlaut 62% fylgi sem næsta forsetaefni Bandaríkjanna en Ron DeSantis sem hafnaði í öðru sæti hlaut einungis 20% fylgisins. Það virðist sem byrinn sé því með Donald Trump þessa dagana og skyldi engan undra því hann hefur meðal annars lýst því ítrekað yfir að vera mótfallinn stríðinu í Úkraínu, stríði sem hinn venjulegi bandaríkjamaður er orðinn afar þreyttur á.

Það sem er hins vegar áhugaverðast í því sambandi þá segist Trump geta leitt friðarviðræður milli deiluaðila. Á fjöldafundi á dögunum lýsti Trump því hvernig hann myndi fara að því að sætta Selensky og Pútín.

„ég myndi einfaldlega taka upp símtólið og segja þeim að koma á minn fund og ræða við mig og ég er viss um og fullyrði að það tæki mig ekki meira en klukkutíma að binda endi á þetta skelfilega og tilgangslausa stríð“sagði Trump.

Steve Bannon sem sótti einnig þing íhaldsmanna er ekki í nokkrum vafa um að Trump muni verða kjörinn forseti á ný og segir globalista hata Trump því hann sé rödd almennings og það sé þeim þyrnir í augum að rödd almennings fái að heyrast.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila