Umboðsmaður bara hvetur sveitarfélög til að huga að hljóðvist í skólum

Umboðsmaður barna hefur sent erindi til allra sveitarfélaga á landinu þar sem sveitarfélögin eru hvött til þess að kanna hljóðvist í skólabyggingum.

Erindið er sent í tilefni að því að mælingar Vinnueftirlits ríkisins hafa sýnt fram á að bæta þurfi hljóðvist í skólabyggingum á öllum skólastigum. Einnig kom fram að ómtími í opnum rýmum, svo sem matsölum, íþróttasölum og stórum kennslurýmum er víðast hvar of langur, sem magnar hávaða og getur skaðað heyrn barna og starfsfólks. Þá sýna rannsóknir að kennarar upplifa hávaða sem algengasta álagsþáttinn í starfi sínu.

Bendir umboðsmaður á í erindi sínu að góð hljóðvist í skólaumhverfi barna eykur gæði náms, bætir námsárangur, einbeitingu, félagslega- og andlega líðan barna og kennara og hefur jákvæð áhrif á skólastarf almennt. Þá getur slæm hljóðvist verið félagslega einangrandi og valdið heyrnartapi og líkamlegri vanlíðan, einkum meðal ákveðinna hópa barna. 

Jafnframt bendir umboðsmaður á að víða standi nú yfir miklar endurbætur á skólahúsnæði vegna mygluvanda. Með einföldum og kostnaðarlitlum aðgerðum sé unnt að bæta hljóðvist til muna, t.d. með hljóðísogandi lofta- og veggplötum. Með það í huga hvetur umboðsmaður barna sveitarfélög landsins til að huga að bættri hljóðvist í skólum, jafnt í þeim skólum þar sem fyrirhugaðar eru framkvæmdir sem og öðru skólahúsnæði

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila