Undirbjuggu hryðjuverk á Íslandi

Fjórir karlmenn sem handteknir voru í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu í gær eru grunaðir um að hafa verið að undirbúa að fremja hryðjuverk hér á landi. Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglu nú fyrir stundu. Mennirnir sem handteknir voru höfðu orðið sér úti um og framleitt að hluta sjálfir mikið magn vopna og komið sér upp miklu magni af skotfærum. Tveir mannanna hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald, annar í tvær vikur og hinn í einnar viku gæsluvarðhald.

Það var mat lögreglu að grípa þyrfti til aðgerða án tafar enda ljóst að almennum borgurum stafaði mikil hætta af ætluðum áætlunum mannanna. Lögregla gerir ráð fyrir að hryðjuverkið ætti að beinast að Alþingi eða lögreglu.

Í aðgerðum lögreglu var hald lagt á skotvopn, meðal annars hálfsjálfvirk sem talin er stórhætta af og þúsundir skota en að minnsta kosti tveir mannana sem handteknir voru báru á sér skotvopn við handtökuna. Aðgerðir lögreglu fóru fram víða á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal í Holtasmára í Kópavogi og í iðnaðarhverfi í Mosfellsbæ. Handtakan og aðgerðir lögreglu eru hluti af yfirstandandi rannsókn lögreglunnar sem staðið hefur um nokkra hríð og stendur enn. Rannsóknin snýr meðal annars að skipulagðri glæpastarfsemi og viðamiklum vopnalagabrotum. Auk þess er skoðað hvort mennirnir tengist erlendum glæpasamtökum og er sá þáttur rannsóknarinnar meðal annars unninn í samstarfi við Interpol.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila