Undirbúa landsskýrslu um innleiðingu Árósarsamningsins

karahnjukarUmhverfis- og auðlindaráðuneytið undirbýr nú gerð annarrar skýrslu um stöðu innleiðingar Árósasamningsins hér á landi. Skýrslan verður unnin í samráði við umhverfisverndarsamtök og mun ráðuneytið taka við öllum ábendingum frá almenningi um efni hennar.
Ísland fullgilti í október 2011 Árósasamninginn um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Þar með varð Ísland fullgildur aðili að samningnum og því starfi sem tengist honum. Auk aðildarríkjaráðstefnu á þriggja ára fresti og ríkjafunda sem haldnir eru árlega eru á vettvangi samningsins reknir vinnuhópar um helstu málefni samningsins, þ.e. aðgang að upplýsingum, þátttökuréttindi almennings og aðgang að réttlátri málsmeðferð. Þá er rekin sérstök nefnd um framfylgni (Compliance Committee) sem fylgist með framkvæmd samningsins í aðildarríkjum hans.
Á þriggja ára fresti ber aðildarríkjum að skila aðildarríkjaskýrslu til skrifstofu samningsins þar sem farið er yfir stöðu innleiðingar ákvæða samningsins í viðkomandi ríki. Síðast skiluðu aðildarríkin skýrslu árið 2014 og var Ísland þar á meðal. Í ársbyrjun 2017 eiga aðildarríkin að skila skýrslu að nýju og verða þær til umræðu á aðildarríkjaráðstefnu samningsins á næsta ári.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila