Undirbúningur hafinn að stofnun viðbragðssveitar

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur stofnað undirbúningshóp til að koma á fót EMT (Emergency Medical Team) viðbragðssveit á Íslandi. Ákvörðun um stofnun hópsins er tekin að undangengnu samráði í ríkisstjórn.

EMT viðbragðssveitir eru virkjaðar ef válegir atburðir eiga sér stað sem valda almannavarnaástandi, s.s. vegna stórra hópslysa, farsótta, hópsýkinga eða náttúruhamfara. Þær eru mannaðar læknum, hjúkrunarfræðingum og stuðningsfólki sem starfa víðsvegar um landið. Willum Þór heilbrigðisráðherra segir jarðhræringar síðustu mánuði á Reykjanesskaga og nýlegt strand skemmtiferðaskips við Grænland undirstrika þörf fyrir EMT viðbragðssveit á Íslandi:

„Verði sveitin stofnuð hér á landi getur hún sinnt verkefnum um allt land með sérþekkingu á verkefnum almannavarna og orðið leiðandi á sviði heilbrigðisþjónustu á vettvangi á neyðartímum. Sveitin gæti til að mynda aðstoðað við að koma sjúklingum í viðeigandi úrræði, eða til að sinna heilbrigðisþjónustu á vettvangi meðan beðið er eftir liðsinni frá öðrum þjóðum. EMT sveitin gæti þá einnig sinnt aðstoð vegna válegra atburða erlendis.“ 

12 Evrópuríki þegar stofnað alþjóðasveitir

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur þróað alþjóðlega staðla og vottun slíkra sveita sem gegni hlutverki grunneiningar heilbrigðisþjónustu í almannavarnakerfi hvers lands. Tólf Evrópuríki hafa þegar stofnað 17 alþjóðasveitir, þeirra á meðal Noregur, Belgía og Þýskaland. Sveitin sem starfar í Noregi er með áherslu á aðstæður á norðurslóðum og hafa stjórnendur hennar boðið fram leiðsögn við stofnun viðbragðssveitar á Íslandi.

Í undirbúningshópi heilbrigðisráðherra að stofnun EMT-sveitar sitja fulltrúar forsætisráðherra, dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra, ásamt fulltrúa Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og sóttvarnasviðs embættis landlæknis. Gert er ráð fyrir að hópurinn hafi samráð við Landsbjörg, heilbrigðisstofnanir, Rauða kross Íslands og aðra aðila eftir þörfum. Hlutverk hópsins er undirbúa stofnun sveitarinnar, gera verkefnisáætlun og kostnaðaráætlun og meta möguleika á styrkumsóknum frá Evrópusambandinu og Evrópuráðinu. 

Undirbúningshópinn skipa:

  • Jón Magnús Kristjánsson, án tilnefningar, formaður
  • Tryggvi Hjörtur Oddsson, tilnefndur af sóttvarnasviði embættis landlæknis
  • Atli Viðar Thorstensen, tilnefndur af forsætisráðuneyti
  • Áslaug Karen Jóhannsdóttir, tilnefnd af utanríkisráðuneyti
  • Guðrún Lísbet Níelsdóttir, tilnefnd af Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra 
  • María Sæm Bjarkardóttir, án tilnefningar og er jafnframt starfsmaður hópsins
Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila