Valdaleysi stjórnvalda að kenna að ekki sé virkjað

Það er fyrst og fremst valdaleysi stjórnvalda að kenna að ekki hafi verið virkjað hér á landi og að hér sé kominn upp orkuskortur. Þetta segir Birgir Örn Steingrímsson flokksfélagi í Sjálfstæðisflokknum og stjórnarmaður Heimssýnar og Orkunnar okkar en hann var gestur í þætti Péturs Gunnlaugssonar.

Birgir segir að virkjanir strandi á því að hér séu stjórnmálamenn búnir að framselja of mikið af valdi til Evrópu og rifjar Birgir upp að fyrirhuguð virkjun Þjórsár hafi einmitt frestast vegna þess að fara þyrfti eftir vatnalögum Evrópu. Gleymst hefði að skrifa skýrslu um hvaða áhrif virkjunin hefði á vatnafarið á svæðinu og samkvæmt þessum vatnalögum Evrópu þyrfti að skila slíkri skýrslu. Því sé eina leiðin núna til þess að virkja sé að lýsa yfir neyðarrétti. Þannig sé hægt að skauta framhjá því sem Íslandi beri að gera samkvæmt vatnalögum Evrópu og þannig erum við að fara einu leiðina sem hægt sé að fara til þess að tryggja okkur orku.

Þurfum að lýsa yfir neyðarástandi í raforkumálum

Hann segir að afleiðing orkupakka 3 sé sú að nú sé það að gerast sem aldrei hefur gerst í sögunni. Almenningur og fyrirtæki þurfi að keppa við erlenda aðila um orkuna og stjórnvöld megi ekki bregðast við nema á þann hátt að lýsa yfir neyðarástandi. Hann bendir á að hann hafi spáð því að þetta myndi gerast innan 10 ára ef pakkinn yrði samþykktur en þetta ástand sé að raungerast fyrr.

Fólk í Evrópu þvær þvotta um nætur

Þá segir Birgir að þetta sé aðeins forsmekkurinn að því sem koma skuli. Í Evrópu sé það þannig að fólk þurfi að þvo þvotta um nætur því þá sé orkan ódýrari og þá fari fólk einnig sjaldnar í sturtu. Þetta kerfi sé sett upp svo Þýsk fyrirtæki fái næga orku. Þau séu í raun að sjúga til sín alla orku í Evrópu með þeim afleiðingum að til dæmis þurfi fólk í Suður Noregi að greiða tífallt hærra verð fyrir orku en áður.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila