Vandi borgarinnar er bruðl, skammsýni og skipulagsleysi

Fjárhagsvanda Reykjavíkurborgar má helst rekja til þess að þar er bruðlað, ekki horft á mál til enda þegar farið er í verkefni og ekki forgangsraðað rétt. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Helga Áss Grétarssonar varaborgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í þætti Péturs Gunnlaugssonar.

Helgi segir að fjármagn sé ekki sé skorið niður þar sem vel megi skera niður í rekstri borgarinnar. Til dæmis mætti meirihlutinn einbeita sér að því að setja fjármuni eingöngu í þau kjarnaverkefni sem borginni sé ætlað að sinna samkvæmt lögbundnu hlutverki sínu og skera niður til þeirra verkefna sem ekki rúmist innan þess sem borgin á að sinna. Þannig myndu strax sparast fjármunir og hægt væri að gera betur í því að borgin sinni skyldum sínum við borgarbúa.

Smáhýsin of dýr í uppsetningu

Það megi greina mikla skammsýni af hálfu meirihlutans til dæmis þegar kemur að málaflokki heimilislausra. Þar hafi borgin sýnt ákveðna viðleitni með því að kaupa smáhýsi til þess að bregðast við vanda þess hóps sem hvergi á höfði sínu að halla en ekki hafi verið horft á verkefnið til enda. Til að mynda sé kostnaður við uppsetingu sökkla slíkra húsa mjög mikill. Hver fermetri í slíku húsnæði sé verðlagður á um milljón króna. Þá sé rekstrarkostnaður smáhýsanna mjög hár og þar komi ýmsir þættir til. Til dæmis umgengnin um húsin en þeir sem í húsunum dveljast eiga við fíknivanda að etja og því geti umgengnin oft á tíðum verið slæm.

Hælisleitendur fari að lögum eins og öðrum er ætlað að gera

Þó smáhýsin hafi komið til eru margir enn heimilislausir. Eins og kunnugt sé hafi ríkið sagt nýverið að sveitarfélögin eigi að sjá um hælisleitendur sem eru á götunni eftir að hafa verið sviptir þeim réttindum sem þeir hafa haft vegna þess að þeir hafi ekki farið úr landi,á tilskyldum tíma.

Helgi segir að honum finnist mikilvægt hvað þróun útlendingamála varðar að það sé virk stefna í gangi sem auki líkurnar á að fólk nái að aðlagast samfélaginu og allt gangi eins vel fyrir sig og kostur er. Það sé hins vegar þannig að mikilvægt sé að lögum í landinu, sem gildi um málaflokkinn, sé fylgt fast eftir og að fólk sem ekki búi hér fari eftir þeim lögum sem hér gilda og hlýti þeim. Það einfaldlega gangi ekki upp að ætlast sé til að þegnar, hér á landi, hlýti lögum í einu og öllu þegar annar hópur, sem ekki eigi hér heima og sé ólöglegur í landinu, fari ekki eftir þeim lögum sem eru í gildi og neiti að yfirgefa landið. Það sé mjög hæpið að halda því fram að sveitarfélögin hafi skýra skyldu um að sjá um þennan hóp hælisleitenda.

Hlusta má á ítarlegri umræðu um borgarmálin í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila