Varar við hugvíkkandi efnum – Það er engin töfralausn til

Það er mjög varhugavert að taka inn hugvíkkandi efni og sú bylgja um meint ágæti hugvíkkandi efna sem skekur landið núna er fyrst og fremst byggð á trú manna á töfralausnum, sem séu alls ekki til. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Óttars Guðmundssonar geðlæknis í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Óttar segir að sú umræða sem nú fari fram um hugvíkkandi efni sé lítið annað en boðskapur gömlu hippana varðandi ofskynjunarefni eins og LSD, Mescalin og fleiri slíkra efna sem páfar hippahreyfingarinnar boðuðu. Síðan fóru menn að halda að sér höndum því alls konar atvik sem komu uppá, fólk fór á mjög slæmt ofskynjunartripp og slæm andleg og líkamleg einkenni fóru að koma fram hjá þeim sem notuðu þessi efni og biðu sumir þess aldrei bætur. Richard Nixon hafi svo haft forgöngu að því að þessi efni hafi verið bönnuð og menn hafi hætt að horfa á þau sem allsherjar lausn á einhverjum vanda eins og geðröskunum.

Nú á síðustu árum hafi hins vegar gamla hippakenningin skotið upp kollinum að nýju um að þessi efni séu einhver töfralausn á alls kyns vandamálum, svo hafi þessi umræða fengið vængi með tilkomu netsins og efnin sögð lausnin nánast á hverju sem plagar mannfólkið. Það sem fólk þurfi þó að hafa í huga sé að það sé enginn töfralausn til og þessi hugvíkkandi efni eru ekki full rannsökuð. Neysla þeirra geti virst saklaus í fyrstu en á endanum fer allt úr böndunum og neytandinn kominn í mjög slæma krísu.

Hann segir að þegar menn tali um að nota slík efni í lækningaskyni sé í raun ekki öll sagan sögð því slík meðferð sé afar erfið og vandasöm, auk þess sem óljóst sé hvort og þá hvernig menntun læknar þurfi að hafa til þess að meðhöndla sjúklinga með þeim. Fólk sé að fara til fjarlægra landa til þess að hitta einhverja galdrakarla í þessum tilgangi en stóra málið er einfaldlega það að það er engin töfralausn til, ekki frekar en á hippaárunum.

„gamlir læknar eins og ég erum orðnir afskaplega þreyttir á þessu tali um töfralausnir og jafnvel þó að einhver töfralausn kæmi fram þá myndu fylgja því fjölmargar aukaverkanir og önnur vandamál sem koma upp“ segir Óttar.

Hann segir að hættan sé alltaf sú að tilraunir með sjálfan sig fari algerlega úr böndunum og efnin verði fljótt misnotuð. Þetta er eins og í kvikmyndinni Druk sem nú er einnig orðin að leikriti þar sem hópur manna er alltaf með 0,5 prómill af áfengi í blóðinu og þannig funkeri þeir svo vel og það er alveg rétt að þeir gera það í fyrstu en svo fer allt úr böndunum.

„auðvitað vitum við það að fólk sem er alltaf á vímuefnum funkerar ekki vel“segir Óttar.

Hann segir afar mikilvægt að vara við því að fólk hoppi ekki á þennan vagn töfralausna og segist að honum finnist margir kollega hans hafa fallið þar á prófinu. Þeir setji upp gáfusvip og tali um að fyrstu rannsóknir séu mjög lofandi en ítrekar það að efnin hafi alls ekki verið full rannsökuð og rétt sé að spyrja að leikslokum í þeim efnum. Þá varar hann við þingsályktunartillögu um að leyfa slík efni því það sem stjórnmálamenn sækist fyrst og fremst eftir það er að sýnast vera hipp og kúl og vilji ná sér í atkvæði hjá unga fólkinu.

Deila