Vararíkissaksóknari hefur þurft að þola áralangar líflátshótanir frá hnífaárásarmanninum

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari og fjölskylda hans hafa þurft að þola áralangar líflátshótanir af hálfu erlends manns sem handtekinn var eftir að hann stakk tvo menn af tilfefnislausu í verslun í Valshverfinu síðastliðinn fimmtudag.

Helgi Magnús greinir frá þessu í færslu á Facebooksíðu sinni í gær en þar kemur fram að maðurinn hafi meðal annars hlotið dóm vegna hótana í hans garð en maðurinn á langan sakaferil af baki. Meðal brota sem maðurinn hefur hlotið dóm fyrir eru líkamsárásir, brot gegn valdstjórninni, húsbrot og brot gegn nálgunarbanni svo eitthvað sé nefnt.

Í færslunni kemur fram að Helgi Magnús undrast að ekki sé búið að vísa manninum úr landi og segir Alþingi of værukært þegar kemur að málaflokki útlendinga og forgangsröðunin röng.

Segir Helgi Magnús að svo virðist sem öryggi þeirra sem vinna í réttarvörslukerfinu sem og lögreglumanna skipti minna máli en því að veita slíkum manni uppihald og framfærslu úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.

Ljóst er á brotaferli mannsins að það er ekki af ástæðulausu að Helgi Magnús hafi áhyggjur af því að honum hafi ekki verið vísað úr landi enda virðist hann halda uppteknum hætti áfram þrátt fyrir fjölda dóma. Skráð hafa verið frá árunum 2017 til 2021, 91 tilvik í kerfi lögreglu vegna afskipta hennar af manninum en það skal athugast að það eru aðeins skráningarnar fyrir það tímabil.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila