Vaxtahækkanirnar eru glæpur gegn heimilum í landinu

Þegar horft er til þeirra afleiðinga sem verða af ítrekuðum vaxtahækkunum Seðlabankans þá er varla hægt að segja annað en að þetta sé glæpur gegn heimilum í landinu: Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Ásthildar Lóu Þórsdóttur þingmanns Flokks fólksins í síðdegisútvarpinu í dag en hún var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Ásthildur sem á sæti í efnahags og viðskiptanefnd Alþingis segir að á opnum fundi nefndarinnar í morgun með Seðlabankastjóra hafi henni rekið í rogastans þar sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefði látið þau orð falla að hann hefði ekki áhyggjur af þeim sem ættu eigið húsnæði og hafa virst slétt sama um heimilin.

Hún segir það skjóta skökku við því greiðslubyrði af húsnæðislánum hefðu hækkað upp úr öllu valdi með þeirri augljósu hættu á að fólk geti á endanum ekki haft efni á að borga af sínum húsnæðislánum og þar með hreinlega misst heimili sín.

Framselja þúsundir heimila í krumlur bankanna

Ásthildur bendir á að fólk hafi oftar en ekki sett allan sparnaðinn sinn í að kaupa sitt eigið húsnæði. Svo komi upp ástand eins og nú hefur gerst og ef fólk lendi í þeirri stöðu að missa húsnæði sitt eigi það jafnvel ekkert fé eftir til þess að geta leigt sér húsnæði. Staðan sé í raun alveg skelfileg.

„það er verið að framselja þúsundir heimila og líf fólks í hendur bankanna sem munu geta haldið svipunni á þeim alla ævina út, þetta er eins og það sem gerðist eftir hrunið, ég gekk í gegnum þetta og veit hvað þetta er. Mér er ekkert einungis heitt í hamsi heldur hef ég stórkostlegar áhyggur af þessum heimilum sem eru núna að reyna að létta á ástandi sem þau ráða ekki við með því að taka verðtryggð lán í 10% verðbólgu“segir Ásthildur.

Þá segir Ásthildur í raun afar sérkennilegt að fólk sé látið ganga í gegnum lánshæfismat í ljósi þess að sveiflurnar á afborgunum séu svo miklar að fólk sem hafi komist í gegnum lánshæfismat sé farið að borga upphæðir sem það hefði aldrei átt að geta borgað samkvæmt lánshæfismati.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila