Vekur upp grunsemdir að leggja eigi Borgarskjalasafn niður eftir gagnrýni þess í braggamálinu

Það vekur upp ákveðnar grunsemdir að lagt sé til að leggja niður Borgarskjalasafn sérstaklega ef horft er til þess að yfirstjórn Reykjavíkur kom með aðfinnslur um gagnrýni Borgarskjalasafns í braggamálinu. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Mörtu Guðjónsdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í síðdegisútvarpinu í dag en hún var gestur Péturs Gunnlaugssonar.

Marta bendir á að Borgarskjalasafn gegni mikilvægu eftirlitshlutverki. Hlutverk þess er meðal annars að fylgjast með því að stofnanir og starfseiningar Reykjavíkurborgar sinni skjalavörslu eins og vera ber samkvæmt lögum. Málið hefur vakið nokkra furðu og svo virðist sem starfsmenn Borgarskjalasafns hafi ekki vitað hvað stæði til.

Hún segir að leynd yfir þeirri tillögu um að leggja Borgarskjalasafn niður og sá gífurlegi hraði í málinu veki upp ákveðnar grunsemdir, til dæmis þegar kemur að braggamálinu.

„það verður ekki hjá því komist í þessu sambandi að rifja upp aðfinnslur yfirstjórnar Reykjavíkurborgar vegna gagnrýni Borgarskjalasafns í braggamálinu á skjölun varðandi málið þar sem tölvupóstar týndust hjá yfirstjórninni þannig það vekur upp grunsemdir“segir Marta.

Hún segir aðkallandi að málið sé sett í eðlilegan farveg.

„við í minnihlutanum viljum að málið verði skoðað betur og málið fái eðlilega umræðu en það sé ekki verið að hlaupa af stað með einhverja tillögu út í loftið eins og þessi tillaga ber með sér“segir Marta.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila