Velvild fyrirtækja og sjálfboðaliða skiptir sköpum fyrir starf Fjölskylduhjálpar Íslands

Ásgerður Jóna Flosadóttir formaður Fjölskylduhjálpar Íslands sem hefur nú í 20 ár staðið í brúnni hjá Fjölskylduhjálp Íslands segir yfirvöld gefa hinu mikilvæga hjálparstarfi sem þar er unnið alltof lítinn gaum. Í síðdegisútvarpinu í dag ræddi Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri við Ásgerði um starf Fjölskylduhjálparinnar og þá erfiðleika sem mæta þeim sem verst standa fjárhagslega í samfélaginu og eiga ekki til hnífs og skeiðar.

Ásgerður segir að halda úti slíku hjálparstarfi kosti bæði gríðarlega vinnu og fjármuni en sem betur fer séu mörg góð fyrirtæki og sjálfboðaliðar sem standa þétt við bakið á Fjölskylduhjálpinni og gera starfið mögulegt. Hún segir neyðina í samfélaginu vera að aukast og það megi best sjá á því að nú fer matarúthlutun fram alla virka daga og þar séu margar hendur sem komi að. Í dag sé staðan sú að mikill hluti þeirra sem leita á náðir Fjölskylduhjálparinnar af erlendu bergi brotnir en margir sjálfboðaliðanna eru einnig af erlendu bergi brotnir, meðal annars fólk frá Venesúela sem sé afskaplega yndislegt og mjög vinnusamt fólk.

Ásgerður segir að margir þeirra erlendu einstaklinga sem til þeirra leita halda að úrræðið sé á vegum stjórnvalda þó það sé langur vegur frá því því stjórnvöld gefi starfinu allt of lítinn gaum. Starfið byggist fyrst og fremst á góðri hjálp fyrirtækja og velviljaðra einstaklinga og hörkuduglegra sjálfboðaliða.

„staðan er orðin þannig núna að við erum með úthlutanir á hverjum einasta virkum degi bæði í Reykjavík og Reykjanesbæ og ástæðan fyrir því að það sé hægt er ekki vegna þess að við séum svo fjáð heldur opnuðum við svokallaðan matarbanka fyrir um ári síðan og á þessu ári hefur þetta breyst gríðarlega mikið og fyrirtækin hafa verið að taka við sér og leggja til mat“

Hún segir matarbankann verða ávinning bæði fyrir skjólstæðinga Fjölskylduhjálparinnar sem og þeirra fyrirtækja sem leggja til matinn sem annars myndi liggja undir skemmdum og þyrfti að urða. Þannig er verið að nýta þennan mat og draga úr matarsóun í leiðinni.

Hlusta má á þáttinn hér að neðan þar sem Ásgerður greinir ítarlega frá starfi Fjölskylduhjálparinnar undanfarna tvo áratugi.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila