Verkefninu BioProtect ætlað að auðvelda auðlindastýringu og verndun hafsvæða

Matís og Hafrannsóknastofnun leiða og hafa sett af stað nýtt alþjóðlegt 1.2 milljarða króna rannsókna- og nýsköpunarverkefni sem ætlað er að taka á meintum loftslagsbreytingum og meintri ógn við líffræðilegan fjölbreytileika sjávar. Þetta á meðal annars að stuðla að auðvelda ákvarðanatöku um auðlindanýtingu eða verndun hafsvæða í samvinnu við hagaðila eins og sveitarfélög og sjávarútvegsfyrirtæki.

Í tilkynningu segir að einnig verði farið í víðtæka kortlagningu á nýtingu og áhrifum manna á einstök hafsvæði og tegundir í hafinu. Þá verður gerð aðgerðaáætlun fyrir forgangsröðun verndunar- og endurheimtunaraðgerða, sem og mat á vistfræðilegum, félagslegum og hagfræðilegum áhrifum þessara verndaraðgerða á fimm hafsvæðum þ.e. við Ísland, Noreg, Írland, Portúgal og Azor eyjar.

Alls taka 18 fyrirtæki og stofnanir víðsvegar að úr Evrópu þátt í verkefninu, en því er stjórnað af Dr. Sophie Jensen, verkefnastjóra hjá Matís. Hún er svo studd af Dr. Julian Burgos hjá Hafrannsóknastofnun, sem er vísindalegur leiðtogi verkefnisins.

BioProtect verkefnið er sagt stuðla m.a. að því að Evrópuþjóðir nái helstu markmiðum Kunming-Montreal Global Biodiversity Framework samningsins sem undirritaður var í lok árs 2022. Í honum er kveðið á um að ríki skuli vernda 30% haf- og landsvæða fyrir árið 2030 og hefur sá samingur verið undirritaður af fleiri en 200 ríkjum, þar á meðal Íslandi.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila