VG segjast ætla að leggja áherslu á jöfnuð, kvenfrelsi og lýðræði á komandi þingi

Vinstri grænir ætla að leggja áherslu á jöfnuð, kvenfrelsi, lýðræði og réttlæti á komandi þingvetri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum sem send var fjölmiðlum í morgun. Í tilkynningunni segir að meðal annars muni Ólafur Þór Gunnarsson leggja fram frumvarp sem skýrir heimild ráðherra til að semja aðeins við veitendur heilbrigðisþjónustu sem ekki eru reknir í hagnaðarskyni. Þá mun Lilja Rafney Magnúsdóttir leggja fram frumvarp um hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja, en í frumvarpinu verður gert ráð fyrir að hægt verði að leggja dagsektir á fyrirtæki sem ekki fara eftir lögum um kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja.
Einnig verða lagðar fram þingsályktunartillögur sem meðal annars snúa að málefnum innflytjenda, en samkvæmt einni af tillögunum er gert ráð fyrir að koma á fót Ráðgjafastofu innflytjenda, sem verður ætlað það hlutverk að styðja við bakið á þeim sem flytja hingað til lands óháð því hvort sá flutningur stafi af neyð eða ekki.
Þingsályktunartillaga sem snýr að aukinni lýðræðisþátttöku ungs fólks verður lögð fram en samkvæmt henni er gert ráð fyrir að leitað verði leiða til þess að virkja ungt fólk til þess að taka þátt í lýðræðislegri virkni samfélagsins.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila