
Viðskiptaráð Íslands hefur skilað umsögn um drög að reglugerð um plastvörur sem miða að innleiðingu tilskipana Evrópusambandsins. Ráðið telur að reglugerðin muni draga úr vöruúrvali neytenda, hækka vöruverð og ganga lengra en nauðsynlegt sé. Sérstaklega er bent á að íslenskan sé lítið útbreitt tungumál og að innleiðingin þurfi að taka mið af sérstöðu Íslands.
Nýjar merkingarreglur á einnota plastvörum
Drögin miða að því að innleiða bæði tilskipun ESB um áhrif plastvara á umhverfið og reglugerð um samræmdar merkingar. Samkvæmt síðari reglugerðinni skulu ákveðnar einnota plastvörur, þar á meðal tíðavörur, blautþurrkur, tóbaksvörur með síum og drykkjarílát, merktar á opinberu tungumáli viðkomandi lands. Viðskiptaráð bendir á að ólíklegt sé að alþjóðlegir framleiðendur setji sérmerkingar á íslensku fyrir markað sem telur einungis um 380.000 íbúa.
Áhrif á neytendur og fyrirtæki
Þar sem merkingarnar þurfa að vera forprentaðar eða greyptar á vöruna sjálfa, en ekki á límmiðum, myndi aukakostnaður lenda á innflytjendum sem þyrftu að óska eftir sérlausnum hjá framleiðendum eða bera kostnað sjálfir. Viðskiptaráð varar við því að þetta leiði til minni vöruúrvals og hærra verðs, jafnvel á nauðsynjavörum eins og tíðavörum.
Lagastoð og atvinnufrelsi
Ráðið bendir á að slíkar takmarkanir, sem skerða atvinnufrelsi, verði að hafa skýra lagastoð í lögum samkvæmt 75. gr. stjórnarskrárinnar. Reglugerð ein og sér dugi ekki til og því sé hætta á að innleiðingin standist ekki lög.
Kallar eftir endurskoðun
Viðskiptaráð leggur áherslu á að endurskoða þurfi reglugerðardrögin áður en þau eru samþykkt. Ráðið telur að taka verði mið af sérstöðu Íslands og tryggja að ekki sé gengið óhóflega á hagsmuni neytenda og fyrirtækja með íþyngjandi og dýrri innleiðingu.
Sjá má umsögnina í heild með því að smella hér
