Vigni Vatnari boðið að taka þátt í æfingabúðum Magnusar Carlsen

Vigni Vatnari Stefánssyni, alþjóðlegum meistara í skák hefur verið boðið að taka þátt í Offerspill æfingabúðum á vegum Magnusar Carlsen heimsmeistara í skák. Þetta kom fram í þættinum Við skákborðið í dag en þar ræddi Kristján Örn Elíasson við þá  Vigni Vatnar og Bolvíkinginn og FIDE meistarann Halldór Grétar Einarsson sem stofnaði skákdeild Breiðabliks en þar er Vignir einmitt félagsmaður.

Vignir segir boðið vera mikinn heiður og að í æfingabúðunum komi saman bestu skákmenn Norðurlanda og bestu þjálfarar heims.

Þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára gamall vantar hann aðeins einn stórmeistaraáfanga í viðbót til þess að verða útnefndur stórmeistari í skák hjá Alþjóðaskáksambandinu FIDE. Vignir Vatnar hefur þegar náð tilskyldum fjölda elo-skákstiga sem til þarf eða 2500 stigum. Vignir segir að það sé um það bil eitt ár frá því hann náði sínum síðasta áfanga en undanfarið ár hafi hann ekki náð að standa sig eins vel og hann sjálfur vildi. Hann er bjartsýnn á framhaldið og segir að hann muni landa síðasta áfanganum innan tíðar.

Við skákborðið er vikulegur þáttur á Útvarpi Sögu sem fjallar um skák og tengd málefni á innlendum og erlendum vettvangi. Umsjónarmaður þáttarins er Kristján Örn Elíasson alþjóðlegur skákdómari.

Kristján Örn Elíasson

Kristján Örn Elíasson

Deila