Vill skerpa stefnuna og tengja saman grasrótina við forustu Sjálfstæðisflokksins – Flokkurinn kominn of langt til vinstri

Það er forgangsverkefni að skerpa á stefnu Sjálfstæðisflokksins svo flokksmenn viti með skýrum hætti fyrir hvað hann standi og hver gildi hans séu og þá þarf einnig að þétta raðirnar í flokknum og koma á tengslum grasrótarinnar við forustuna. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Helga Áss Grétarssonar borgarfulltrúa flokksins í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Helgi sem nú býður sig fram í embætti ritara á landsfundi flokksins sem haldinn verður þarnæstu helgi segir afar mikilvægt að flokksmenn skynji að stefna flokksins sé skýr en ekki á einhverju reiki.

„það er mín skoðun að öll grundvallarmálin sem ég stend fyrir sem felur meðal annars í sér að andinn í flokknum eigi að vera hugrekki, ég stend fyrir hugrekki í stjórnmálum og að við eigum að vera stolt af því að styðja Sjálfstæðisflokkinn, það er mjög mikilvægt og það gerum við með því að standa vörð um grunnstefnu flokksins, bæði í orði og verki“ segir Helgi.

Flokkurinn verður að standa sig betur í upplýsingagjöf

Þá segir Helgi að flokkurinn verði að standa sig betur í því að veita upplýsingar og senda skilaboð sem flokksmenn þurfa á að halda, þau þurfi að vera einföld og skýr og sett fram á þann hátt að fólk skilji þau.

„þannig þegar Sjálfstæðismaður fer í afmælisveislu eða heita pottinn þar sem málin séu rædd þá sé flokksmaðurinn ekki með einhverjar óljósar hugmyndir um hvað flokkurinn stendur fyrir í einstökum málum eða hvert hann sé að stefna, þetta þarf að vera alveg skýrt og ég tel það mjög mikilvægt að það verði bætt all verulega í upplýsingagjöf bæði til flokksmanna og fjölmiðla“ segir Helgi.

Telur Sjálfstæðisflokkinn hafa færst of langt til vinstri

Helgi segir að á undanförnum árum hafi Sjálfstæðisflokkurinn gefið of mikið eftir af stefnu sinni og þannig færst til vinstri, þetta megi til dæmis sjá með því að í þeirri ríkisstjórn sem nú situr sé of mikil áhersla lögð á skattahækkanir og útþennslu hins opinbera.

„það eru mjög margir Sjálfstæðismenn orðnir langþreyttir á því að það sé alltaf verið að gefa eftir af grundvallarstefnu flokksins, að það sé alltaf verið að reyna að færa flokkinn eða málflutning frambjóðenda hans til vinstri, og af hverju gerist það? Jú af því fólk er eitthvað hrætt við þá sem að eru á Twitter, samfélagsmiðlum eða í fjölmiðlum en ég segi, ég er ekki þannig stjórmálamaður, ég segir það sem ég tel vera skynsamlegt og rétt fyrir almannahag og svo getum við tekið rökræðuna, ég stend fyrir hugrekki og stolti og ef fólk er óánægt með mig þá er það bara svoleiðis, en það er alveg skýrt að ég tala fyrir grunnstefnu flokksins og vil vinna henni eins mikið fylgi og ég mögulega get“ segir Helgi.

Regluverk frá Evrópu orðið að bjúrókratískum iðnaði

Aðspurður um hvernig Sjálfstæðisflokkurinn geti sætt sig við að taka við skipunum frá Evrópu í ýmsum málum, til dæmis um að skera niður í sjávarútvegi segir Helgi:

„ég veit það nú ekki en varðandi EES samninginn almennt séð sem við höfum stutt og það er auðvitað margt gott sem hefur komið af þeim samningi en það eru líka atriði innan um þar sem við eigum að geta staðið í lappirnar og ég er til dæmis þeirrar persónulegrar skoðunar að mikið af því regluverki sem hér er, til dæmis persónuverndarlögin og fleira sé orðið að stórum bjúrókratískum iðnaði hérna sem ég eiginlega skil ekki hvernig þjóni okkar samfélagi“ segir Helgi.

Hægt verður að nálgast þáttinn hér í fréttinni innan skamms

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila