Vínarferli ÖSE virkjað vegna mannréttindabrota í Rússlandi að frumkvæði Norðurlanda og Eystrasaltsríkja

Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin áttu frumkvæði að því að Vínarferli Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) var virkjað í dag, vegna mannréttindabrota og frelsisskerðinga í Rússlandi, m.a. vegna óréttmætra fangelsana og illrar meðferðar á pólitískum föngum. Að endingu stóðu 41 ríki að virkjun ferlisins , sem gerir aðildarríkjum kleift að krefjast svara frá rússneskum stjórnvöldum um úrbætur í mannréttindamálum á grundvelli samþykkta og tilmæla ÖSE. 

Ísland var í hópi 38 ríkja sem virkjuðu Moskvuferli ÖSE í júlí árið 2022, vegna mannréttindabrota í Rússlandi sem hratt af stað óháðri rannsókn á vegum Mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE (ODIHR). Niðurstöður hennar leiddu í ljós umfangsmikil og kerfisbundin mannréttindabrot, þvert á alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar Rússlands, m.a. á grundvelli samþykkta og tilmæla ÖSE. 

Í ljósi ófullnægjandi viðbragða rússneska stjórnvalda við niðurstöðum rannsóknar ODIHR, áframhaldandi mannréttindabrota og vaxandi fjölda óréttmætra fangelsana af pólitískum ástæðum, var talið brýnt að virkja Vínarferlið, til að láta í ljós þungar áhyggjur af aðgerðum rússneskra stjórnvalda, sem ganga í berhögg við skuldbindingar aðildarríkja ÖSE, og krefja rússnesk stjórnvöld svara. 

Aðdragandi þessarar aðgerðar er ekki síst meðferð rússneskra stjórnvalda á stjórnarandstæðingnum Alexei Navalny, sem fangelsaður var í janúar 2021 og lést í haldi þeirra fyrr á árinu. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila