Virðing fyrir skáklistinni er skilyrði þess að ná árangri

Helgi Ólafsson er stórmeistari í skák og skólastjóri Skákskóla Íslands. Helgi var gestur Kristjáns Arnar Elíassonar í þættinum Við skákborðið í dag þar sem Helgi ræddi um skákina og skákferil sinn.

Helgi er einn sigursælasti skákmaður íslands og hefur orðið Íslandsmeistari sex sinnum í kappskák, fimm sinnum í hraðskák og fjórum sinnum í atskák. Hann var í kringum 30. sætið á heimslistanum yfir sterkustu skákmenn heims þegar best var og margoft á topp 50 og topp 100. Helgi varð alþjóðlegur meistari FIDE 1978 og alþjóðlegur stórmeistari 1985. Árið 2009 var Helgi útnefndur FIDE senior trainer sem er æðsti þjálfaratitill Alþjóðaskáksambandsins FIDE. Helgi er skólastjóri Skákskóla Íslands.

Helgi segir að þegar hann hafi byrjað að tefla hafi hann verið ungur að árum og búsettur í Vestmannaeyjum. Þar hafi hann árið 1968 gengið í Taflfélagið sem staðsett var í húsi sem bar heitið Drífandi og stóð við höfnina í Vestmannaeyjum.

„Mér fannst þetta mjög skemmtilegur félagsskapur. Ég held reyndar að það hafi hjálpað mér mjög mikið að ég bar mikla virðingu fyrir skáklistinni. Ég held að það sé alveg skilyrði til þess að ná árangri og ég bar mikla virðingu fyrir þessum körlum sem voru að tefla þarna – og ég sagði þetta karla en þetta voru samt menn sem voru bara á þrítugsaldri en fyrir mér voru þetta miklu eldri menn og ég held að þeir hafi flestir sem þarna voru borið skákina þannig fram að það stafaði af því mikil virðing,“ segir Helgi.

ATH: Helgi heimsækir þáttinn Við skákborðið á Útvarpi Sögu í tvö skipti í röð (l. hluti og ll. hluti) og verður næsti þáttur á dagskrá útvarpsstöðvarinnar miðvikudaginn 8. mars nk. kl. 14:00.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila