Virkni gossins enn stöðug

Virkni eldgossins við Stóra-Skógfell virðist nokkuð stöðug og áfram eru virk gosop á sömu stöðum og í gær. Hraun rennur frá gígunum í suður ofan á hrauni sem rann á fyrstu dögum gossins.

Lítil sem engin hreyfing hefur mælst á hraunjöðrum nærri Suðurstrandarvegi og Svartsengi.  Jarðskjálftavirkni síðan eldgosið hófst á laugardagskvöld hefur verið minniháttar.

Á bylgjuvíxlmynd sem tekin var í gær, sáust skýr merki um landris í Svartsengi frá 17. til 18. mars. GPS mælingar frá 18. mars sýna að mögulega dragi úr landrisinu. Það gæti verið vegna þess að nú streymir kvika uppá yfirborð í Sundhnúksgígaröðinni og safnast því ekki saman undir Svartsengi. Þróun eldgossins og aflögunarmælingar næstu daga munu leiða það í ljós hvort jafnvægi komist á innstreymi kviku undir Svartsengi og hraunflæði á yfirborði í Sundhnúksgígaröðinni.

Í morgun fóru sérfræðingar Landmælinga Íslands og Náttúrufræðistofnunar í loftmyndaflug yfir gosstöðvarnar. Út frá þeim myndum er hægt að áætla stærð hraunbreiðunnar og meðal hraunflæði  frá eldgosinu. Þær niðurstöður verða birtar um leið og unnið hefur verið úr gögnunum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila