VR fær vilyrði fyrir lóð undir 36 íbúðir

Borgarráðhefur samþykkt að veita VR vilyrði fyrir lóð og byggingarrétt fyrir 36 íbúðir í Úlfarsárdal. Fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg að lóðarvilyrðið gildi í sex mánuði frá staðfestingu borgarráðs og er bundið því skilyrði að VR stofni leigufélag sem rekið sé án hagnaðarsjónarmiða með það að markmiði að tryggja húsnæðisöryggi og hagkvæma leigu. Þá er VR er heimilt að framselja nýju húsnæðisfélagi lóðarvilyrðið. Gert er ráð fyrir að nýstofnuðu félagi verði seldur byggingarrétturinn að beiðni VR með ákvörðun borgarráðs. Þá segir að lóðarhafi skuldbindi sig til þess að selja 5% af heildarfjölda íbúða, ekki færri en tvær íbúðir, til Félagsbústaða og munu aðilar gera með sé samning þess efnis. Í samkomulaginu verða ákvarðaðar stærðir, staðsetning, skil íbúða og greiðsluflæði á byggingartíma miðað við framvindu uppbyggingarinnar. Félagsbústaðir munu sækja um stofnframlög vegna þessara íbúða til Íbúðalánasjóðs og Reykjavíkurborgar. Þá kemur fram að ef endanlegur samningur um kaupin liggur ekki fyrir innan tveggja mánaða frá úthlutun lóðarinnar fellur hún niður án sérstakrar ákvörðunar og tilkynningar borgarráðs þar um. Verð á fermetra er 45.000 krónur auk gatnagerðargjalds og er upphæðin alls 183 milljónir króna.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila