WHO stýrt af hagsmunaaðilum með fjármagni

Það er runninn upp nýr tími í samskiptum Íslands við erlendar stofnanir og menn verða að átta sig á því að erlendum stofnunum er oftar en ekki stjórnað af lobbýistum og hagsmunaaðilum í gegnum fjármagn sem þeir leggja til með skilyrðum til erlendra stofnana. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Arnars Þórs Jónssonar lögmanns og varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur í dag.

Lögbrot að framselja völd til yfirþjóðlegra stofnana

Arnar segir mikilvægt að þingmenn standi vörð um það sem þeim sé ætlað að standa vörð um og átti sig á því hversu mikla ábyrgð þeir bera og ef þeir ætla að fullgilda sáttmála sem gengur í berhögg við stjórnarskrána eða menn ætli athugasemdalaust að horfa upp á að verið sé að búa til nýtt valdakerfi og framselja vald til yfirþjóðlegrar stofnunar í bága við stjórnarskrána þá sé það lögbrot. Það sé mikilvægt að hafa í huga að í reglugerðinni sé gert ráð fyrir að WHO muni fá lögbundið boðvald.

Skilyrði sett fram í skiptum fyrir fjármagn og völd

Fram kom í þættinum að með því að fara í þessa vegferð með WHO sem fái boðvald yfir aðildarríkjunum sé í raun verið að færa hagsmunaöflum, þar með talið lyfjarisum í raun hið lögbundið boðvald. Það sé viðurkennt af fyrrverandi framkvæmdastjóra WHO að yfir 70% þess fjámagns sem WHO fái frá hagsmunaaðilum sé bundið skilyrðum, það er að segja að gegn fjárframlaginu beri WHO að fara að þeim skilyrðum sem sett séu fram í tengslum við fjármagnið. Þannig séu hagsmunaaðilar að kaupa sig til áhrifa innan WHO.

„þá erum við að tala um aðila sem hafa hag af því að stofnunin taki ákvarðanir í tiltekna átt og hvern er ég þá að tala um, jú ég er að tala hér um til dæmis stóra eigendur í lyfjafyrirtækjunum, lyfjarisunum sem högnuðust gríðarlega á Covid tímanum“segir Arnar Þór.

Þá bendir Arnar Þór á marga sem hafi tröllatrú á alþjóðastofnunum verði að átta sig á að til dæmis hafi lobbýistar mjög greiðan aðgang að stofnunum Evrópusambandsins.

Lobbýistar stöðugt að leita eftir samningum fyrir lyfjarisana

„þar ganga lobbýistar inn og út og þeir skipta tugþúsundum, þarna ganga þeir inn og út á þingi ESB og eru með aðgangskort og hafa mikinn aðgang að þingmönnum Evrópusambandsins. Því er ég ekki viss um að þetta séu þá stofnanir sem Íslendingar, almennir borgarar geti endilega lagt allt sitt traust á. Samruni pólitísks og fjárhagslegs valds hefur á öllum tímum reynst stórlega skaðlegur fyrir almenna borgara“ segir Arnar Þór.

Hlusta má á ítarlegri umræður um WHO farsóttarsáttmálann og breytingar á reglugerð WHO (IHF) í spilaranum hér að neðan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila