Augljós feluleikur í gangi í Lindarhvolsmálinu

Það er augljós feluleikur í gangi í Lindahvolsmálinu og viðbrögð stjórvalda eru komin á nýtt stig ósvífni. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Björns Leví Gunnarssonar þingmanns Pírata í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Hann segir ekki augljóst hvert sá feluleikur leiði en það megi sjá ákveðnar vísbendingar úr Klakka málinu. Þar sé margt sem bendi til þess að þar hafi sérhagsmunaákvarðanir verið teknar í sölu ríkiseigna. Klakkamálið sem Björn vísar í er mál Frígusar gegn Lindarhvoli og Útvarp Saga hefur áður fjallað um og lesa má um hér. Frígus taldi sig hafa orðið fyrir fjárhagslegum skaða þar sem Frígus hafði boðið í eign Lindarhvols en ekki fengið og var því borið við að tilboðið hefði borist of seint. Annað fyrirtæki hafði hins vegar fengið að kaupa eignina langt undir því verði sem tilboð Frígusar hljóðaði upp á.

Bakkavararbræður og viðskiptafélagar þeirra tengdir málinu

Klakki er dótturfélag Exista félags bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona betur þekktir sem Bakkavararbræður, en í stjórn klakka sátu meðal annars fólk tengt Exista meðal annara Erlendur Hjaltason forstjóri Exista og Sigurður Valtýsson og þá sátu Steinar Þór Guðgeirsson lögfræðingur og fyrrum formaður slitastjórnar Kaupþings og Haukur Camillus Benediktsson í stjórn Exista á sama tíma og þeir sátu í stjórn Lindarhvols. Steinar Þór sem sjálfur segist bara hafa verið ráðgjafi Lindarhvols var einnig sá sem sá um sölu umsýslu eigna Lindarhvols og er að auki lögmaður Lindarhvols í máli Frígusar gegn Lindarhvoli.

Björn bendir á að umsýslan í Lindarhvolsmálinu sé hluti af þeim feluleik sem viðgangist:

„þessi starfandi ráðgjafi Lindarhvols sem var í rauninni sá sem sinnti því að selja eignirnar þarna tók við öllum tilboðum í þetta fyrirtæki í sitt persónulega tölvupóstfang sem er mjög skrítið því í svona útboðum þá er þetta venjulega sent í lokuðum umslögum sem eru svo opnuð í vitna viðurvist, hann sat í stjórn þess fyrirtækis sem verið var að selja. Sá sem kaupir svo fyrirtækið sem er rétt yfir tilboði Frígusar er svo framkvæmdastjóri fyrirtækisins og vissi því hvert virði þess var og um tengslin við þann lögfræðing sem sá um söluna“

Þá segir Björn að það hafi verið leppur fyrir sama aðila og fékk að kaupa sem hafi svo átt næsthæsta tilboðið. Björn segir að það sem átt hafi sér stað í málinu sé lögbrot.

„þessi tengsl milli þess sem er að selja og þess sem er að kaupa þessa eign sem er ríkiseign þá eru þarna hagsmunatengsl sem gera það að verkum að þetta er lögbrot, það er ekkert flóknara en það.

Björn segir að tilgangur þess að Lindarhvol var myndað utan um þessar eignir ríkisins hafi verið að slá leyndarhjúp um söluna á eignunum.

„þetta er algjört fíaskó, svona fyrirkomulagi er beitt til þess að slá leyndarhjúp yfir framkvæmd sölunnar sem ekki hefði orðið ef þessar eignir hefðu verið seldar í gegnum fjársýsluna eða framkvæmdasýsluna“segir Björn.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila