Sjálfsmark Björns Bjarnasonar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, t.v. á mynd, formaður Miðflokksins, setti fram tillögu um að Alþingi yrði kallað saman vegna Lindarhvolsmálsins en stjórnarliðar reyna að gera lítið úr því. Hefur hann verið uppnefndur „fjölmiðlastjórnmálamaður“ af helstu málpípu hins deyjandi Sjálfstæðisflokks. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, t.h. á mynd, Pírati, er sökuð um að hafa rofið traust þingsins með birtingu skýrslunnar (mynd wikipedia/skjáskot ÚS).

Gústaf Skúlason, fréttamaður Útvarps Sögu í Svíþjóð skrifar hér pistil sem lýsir skoðunum hans á skrifum Björns Bjarnasonar, sem reynir að gera lítið úr umfjöllun stjórnarandstæðinga um Lindarhvolsmálið. Uppnefnir Björn löglega kjörna stjórnarandstæðinga „fjölmiðlastjórnmálamenn“ og segir Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur hafa „rofið trúnað“ Alþingis með því að birta skýrsluna. Margir hafa allt aðra skoðun á málinu eins og m.a. kemur fram hér að neðan.

Gústaf Skúlason skrifar:

Björn Bjarnason fer „mikinn“ í Lindarhvolsmálinu og segir Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann Miðflokksins trompa Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, pírata fyrir að hafa birt Lindarhvolsskýrsluna þar sem málið hafi gerst á vakt Sigmundar. Björn þegir yfir því, að það er nafn Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, fjármálaráðherra, en ekki Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem er á skjölum um stofnun Lindarhvols. Þessi kúnst að flytja ábyrgð fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytisins samkvæmt lögum frá Alþingi um stofnun Lindarhvols til stjórnmálaandstæðings er lágkúra í stíl falsfréttar en þannig er blekið orðið sem kemur úr penna þessa kverúlants. Líklegast vildi hann banna þá fjölmiðla sem leyfa stjórnmálaandstæðingum að koma til tals.

Björn Bjarnason hefur gjörbreyst, orðinn flæktur í eigin ójarðbundinni fræðimennsku sem hefur gert hann að talsmanni afnáms fullveldis Íslands og stuðningsmanns þess að lög ESB verði æðri íslenskri stjórnarskrá samanber skýrslu um EES-samninginn og tillögu Sjálfstæðismanna um að lögbeygja landsmenn undir ESB samkvæmt bókun 35.

Eitt sinn lét Björn Bjarnason sig þjóðina varða, þegar hann nýtti fjölmiðla til að berjast gegn svikráðum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, sem reyndi að véla íslenska lýðveldið undir hæla Evrópusambandsins. Þjóðin er horfin Sjálfstæðisflokknum sem án þjóðar rambar um stefnulaus, stækkandi ríkiskerfið og treystir í ríkari mæli á atkvæði „möppudýra“ eins og Vilmundur heitinn Gylfason orðaði það. Það er skýringin á þverrandi fylgi Sjálfstæðisflokksins, sem er hættur að láta sig hag landsmanna skipta máli, með formann sem stundar hagsmunagæslu fyrirtækjahóps í stað þess að vera stjórnmálamaður.

Bjarni Benediktsson tók ákvörðun að berjast fyrir eigin frama sem formaður flokksins, sem var metnaðarfull ákvörðun, en stjórnlag hans að byggja varnarmúr af JÁ-fólki í kringum sig hefur einangrað hann frá þjóðinni. Hann er því andstæða þeirra fyrrum foringja flokksins sem hlustuðu á fólk og unnu stétt með stétt.

Tilraun Guðlaugar Þórðarsonar til að komast í formannssætið var ekki gerð af föðurlandsást, heldur í valdabaráttu sem grundvallaðist á eigin viðskiptahagsmunum. Sjálfstæðisflokkurinn sem þjóðin fylgdi er horfinn. Flokkurinn hafði frábæra stjórnmálaleiðtoga eins og Ólaf Thors, Geir Hallgrímsson og Davíð Oddsson að öðrum ólöstuðum. Margir muna eftir Davíðs heilkennum sem Baugs-klíkan í samvinnu við fyrstu hreinu vinstristjórnina stóð fyrir og var um tíma líkt með orðunum Davíð og Trump að hvorugt var hægt að segja upphátt í fjölmenni án þess að einhver byrjaði ekki að ranghvolfa augum og froðan valt af vörum.

Það er mikil ógæfa fyrir Ísland að hafa ekki kosið Davíð Oddsson til forseta, því fyrir utan að það hefði sparað þjóðinni góðan skilding, þar sem Davíð hefði ekki þegið forsetalaunin, þá hefði valist til embættis einn heiðarlegasti og farsælasti stjórnmálamaður í allri sögu íslenska lýðveldisins. Fjallkonan í handjárnum vinstristjórnarinnar neyddist til, líkt þekktri víkingakonu, að vera þeim verst er hún unni mest.

Ekki er samt útilokað að verði sviptingar í íslenskum stjórnmálum sem fyrr eða síðar koma, þegar þjóðin rumskar, að Davíð Oddsson fáist til ráðgjafar um stefnu í mikilvægustu málum landsmanna.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila