Toyota Yarisinn notaður í ráni þar sem brotist var inn í verðmætaflutningabíl

Toyota Yaris bifreið sem lögregla lýsti eftir í gær var notuð sem flóttabíll í ráni þar sem brotist var inn í verðmætaflutningabíl við Hamraborg í Kópavogi.

Ljóst er að ránið var þauskipulagt en meðal annars var búið að skipta út númeraplötum flóttabifreiðarinnar á þann hátt að stolnum plötum var komið fyrir á bifreiðinni. Þá báru númeraplöturnar tvær á bifreiðinni sitt hvort númerið væntanlega til þess að reyna að rugla lögregluna í ríminu.

Verðmætaflutningabifreiðar eins og sú sem var rænd eru alla jafnan látnar keyra mismunandi leiðir en aldrei sömu leiðir þegar farið er í verðmætaflutninga og er það gert til þess að draga úr hættu á að þær séu rændar. Slíkar bifreiðar eru yfirleitt heldur ekki merktar sérstaklega og er það einnig til þess að koma í veg fyrir rán.

Samkvæmt upplýsingum tókst ræningjunum að brjóta rúðu flutningabifreiðarinnar og hafa á brott með sér tugi milljóna í reiðufé. Lögreglan vinnur að rannsókn málsins.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila