Fréttir vikunnar: Brottvísanir, staða heimilanna, ríkislögreglustjóri á bláþræði og Reynir Traustason margbrýtur siðareglur Blaðamannafélagsins

Í þættinum Fréttir vikunnar í dag var farið yfir helstu fréttir vikunnar en segja má að fréttavikan hafi verið mjög lífleg og mörg mál komið upp sem vekja upp ýmsar spurningar og hér ætlum við að stikla á því helsta sem fram kom í þættinum.

Lögreglan einungis að sinna því starfi sem henni er ætlað að sinna

Brottvísanir hælisleitenda hafa vakið nokkuð hörð viðbrögð og hefur lögregla sætt talsverðri gagnrýni fyrir að hafa uppi á hælilsleitendum í þeim tilgangi að fylgja eftir brottvísunarúrskurðum yfirvalda. Arnþrúður sem um árabil var lögreglumaður segir að ekki megi gleyma því að lögreglunni sé ætlað að halda uppi allsherjarreglu og sé eingöngu að sinna þeim störfum sem henni ber að sinna og framfylgja þeim skipunum sem hún fær og þau verkefni séu ekki alltaf auðveld, þetta gildi jafnt alveg sama hvort um sé að ræða hælisleitendur sem hún eigi að fylgja úr landi eða hvort hún sé að hafa uppi á fólki sem hefur verið svipt sjálfræði og flytja það á stofnun eða fara inn á heimili fólks í alls konar aðstæðum, allt þetta sé mjög erfitt fyrir fólk sem gegnir starfi lögreglumanns.

Pétur benti á að þeir sem hafa gagnrýnt brottvísanirnar, til dæmis biskupinn ættu að þekkja þær reglur sem um brottvísanir gilda en tækifærið sé svo notað til þess að ráðast að lögreglunni og yfirvöldum vegna þessara brottvísana.

Gagnrýnin í garð lögreglu ódrengileg og ósanngjörn

Arnþrúður segir gagnrýninna gagnvart lögreglunni ódrengilega og ósanngjarna þar sem hún sé eingöngu að fara eftir þeim verklagsreglum sem gilda og sinna sínum starfsskyldum. Dæmi séu um valdhafa sem ekki telja sig þurfa að fara eftir reglum og hafa skotið skjólshúsi yfir þá sem vísa eigi úr landi og hafi jafnvel reynt að fela á inni í kirkjum og þá hafi oft á tíðum verið tekið gríðarlegt áhlaup í gegnum suma fjölmiðla og settar fram samúðarumfjallanir. Í þeim umfjöllunum séu ólögráða börn oftar en ekki notuð í þeim tilgangi að afla samúðar og þau myndbirt miskunnarlaust bæði í blöðum og sjónvarpi.

Eitt dæmi sé meðal annars um fimm manna fjölskyldu þar sem slík samúðarumfjöllun var sett af stað og látið að því liggja að vísa ætti börnunum úr landi en þau ættu foreldra sem ætluðu að annast þau, svo fór að þeim var ekki vísað úr landi meðal annars vegna samúðarþrýsingsins en síðar kom á daginn að börnin voru tekin frá foreldrum sínum af því þau voru beitt ofbeldi á heimilinu og svo var málið þaggað niður.

Fjölmiðlaumfjallanir og upphrópanir koma niður á mannúðarsjónarmiðum

Arnþrúður bendir á að allar þessar fjölmiðlaumfjallanir og upphrópanir hafi kunnað að bitna á mannúðarsjónarmiðum því til þess að hlífa fólki við að fjölmiðlaumfjöllun fari af stað með tilheyrandi myndbirtingum af börnum sé gefin minni fyrirvari en ella þegar kemur að brottvísunum.

Pétur segir að hann hafi ekki orðið var við sömu gagnrýni þegar selt var ofan af þúsundum fjölskyldna á nauðungarsölu og fólk borið út úr húsum sínum í lögreglufylgd, þó hafi það fólk ekki borið ábyrgð á stöðu sinni því eignirnar voru einfaldlega teknar af þeim og þær seldar vildarvinum.

Miskunnarlausi biskupinn biður miskunnar fyrir hælisleitendur

Þannig virðist tvískinnungurinn ráða ríkjum og öðrum sem hafa ekki þak yfir höfuðið ekki sýndur skilningur af því sama fólki og vill öllum hælisleitendum vel til dæmis sé forsíðumynd af Agnesi biskup á Fréttablaðinu í dag þar sem hún biður um miskunn til handa hælisleitendum.

Arnþrúður segir að biskup ætti að líta sér nær því hún sjálf hafi komið illa fram við fólk, til dæmis presta innan þjóðkirkjunnar, sýnt þeim framkomu sem var með þeim hætti að lítill sómi sé að af hálfu æðsta manns Þjóðkirkjunnar. Hún hafi til dæmis hrakið presta miskunnarlaust úr starfi og frægast sé dæmið úr Digraneskirkju sem nú hefur staðið yfir í tíu mánuði.

Staða heimilanna mjög erfið

Þá var rætt um stöðu heimilanna í þættinum sem Arnþrúður og Pétur benda á að hafi í raun alveg gleymst í allri umræðu. Afborganir lána hafa hækkað um tugi þúsunda sem mikill fjöldi fólks sé í vandræðum með og um er að ræða gífurlega kjaraskerðingu fyrir heimilin. Þessi hópur sé venjulegt fólk sem leggur mikið á sig við að koma sér upp heimili og vill ekki þurfa að leita á náðir hins opinbera en allt virðist gert til þess að setja steina í götu þeirra sem verður til þess að það þarf að vinna mun meira til þess að eiga fyrir skuldum og tapar þar með dýrmætum tíma sem það gæti eytt með börnunum sínum. Þá séu þeir sem búa einir í enn verri stöðu og lítið sem ekkert er gert til þess að koma til móts við þessa hópa.

Vopnabúr hjá föður ríkislögreglustjóra

Fjallað var um hina dæmalausu vopnasölu Guðjóns Valdimarssonar föður Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra og segir Arnþrúður að svo virðist sem málið vindi upp á sig og verði verra með hverjum deginum sem líður og nú síðast hafi komið fram að við húsleit hjá Guðjóni hafi komið í ljós fjörutíu óskráð og þar með ólögleg vopn á heimili hans. Það sem veki upp spurningar er að vopnin voru ekki haldlögð og svo virðist sem Guðjón njóti sérmeðferðar af hálfu lögregluyfirvalda. Þá veki það einnig upp áleitnar spurningar að ekki hafi verið hafin rannsókn á lögbrotum Guðjóns sem uppgvötuðust þegar brot annars manns á vopnalögum var til meðferðar hjá Landsrétti en maðurinn kvað Guðjón hafa selt sér ólöglegt vopn á svörtum markaði, þá hafi Guðjón verið yfirheyrður vegna málsins heima hjá sér en ekki á lögreglustöð eins og venja er.

Sigríði var boðið að koma í þátt á Útvarpi Sögu og greina frá því hvernig málið blasir við henni en Sigríður afþakkaði boðið og sagðist ekki ræða þessi mál á opinberum vettvangi. Ljóst er að staða ríkislögreglustjóra er erfið en hún hefur ekki látið uppi hvort hún sé að íhuga afsögn. Í tilefni þessa máls rifjaði Arnþrúður upp áramótaspá Guðrúnar Kristínar Ívarsdóttur og spilaði hljóðbrot þar sem hún sagði meðal annars að ríkislögreglustjóri myndi hverfa úr starfi á árinu.

Reynir ræðst á menn í skrifum sínum og tekur þá fyrir

Reynir Traustason braut alvarlega gagnvart siðareglum Blaðamannafélags Íslands í umfjöllun sinni á Mannlíf um Róbert Wessmann samkvæmt úrskurði BÍ sem kveðinn var upp í vikunni en úrskurðurinn kom fáum á óvart því Reynir hefur um árabil fjallað um fólk á afar óvæginn hátt. Arnþrúður segir að hún hafi séð þessa hegðun Reynis í áraraðir þar sem hann tekur einstaklinga beinlínis fyrir í umfjöllunum sínum, engu sé líkara en hann fái fólk á heilann.

Arnþrúður nefnir sem dæmi um þetta hvernig Reynir réðst ítrekað á Eið Smára Guðjohnsen knattspyrnumann í níðskrifum sínum. Málið núna snúi að því að Halldór Kristmannsson fyrrum viðskiptafélagi Róberts hafi greitt Reyni Traustasyni yfir 30 milljónir samkvæmt heimildum fyrir að skrifa bók um viðskiptadeilu Halldórs og Róberts og svo byrjar hann að skrifa níðgreinar í röðum á Mannlíf.is um Róbert og segir Arnþrúður að þetta sé einmitt stíll Reynis.

Reynir og skræfurnar á netmiðlunum

Arnþrúður sem vann mál gegn Reyni í Hæstarétti 2021 segir í raun rosalegt að standa í málaferlum við Reyni þar sem hann sé mjög óvæginn og til dæmis þegar málið byrjar árið 2019 þá áskilur hann sér rétt til þess að rangtúlka allt sem Arnþrúður sagði, hún sagði að hann hefði lagt líf fólks í rúst og hann bæri ábyrgð á mannslífi fyrir bragðið af því það er allt líf fólks og mannorð. þá hafi Reynir rokið í Fréttablaðið og sagt þar að Arnþrúður hefði sagt hann hafa drepið mann og annan.

Hann byrjaði að rangtúlka og Fréttablaðið hafi hlaupið á eftir allri vitleysunni og skrifað um það. Arnþrúður sagði að það væri þannig að blaðamenn væru svo miklar skræfur og hræddir við Reyni að þeir þyrðu ekki öðru en að taka afstöðu með honum. Þannig hafi hver skræfan á öllum þessum netmiðlum og Fréttablaðinu hlupu á eftir Reyni allan rauða þráðinn í gegnum málið.

Arnþrúður segir að hún sé þó allavega lærður blaðamaður sem viti muninn á réttu og röngu og hvenær fólk sé lagt í einelti með skrifum. Svo þegar Reynir tapaði málinu og dómur féll sem sagður var hafa almennt gildi og gríðarlegt gildi fyrir blaðamenn hafi Blaðamannafélag Íslands ekki enn séð sóma sinn í því að birta eða fjalla um dóminn, kannski af hræðslu við að Reynir fari að taka þá fyrir.

Deila